Formenn fimm aðildarfélaga Framsóknarflokksins og einn fyrrverandi þingmaður flokksins hafa sagt sig úr Framsókn og ætla heldur að styðja Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formann Framsóknar, í stofnun nýs framboðs. Framkvæmdastjóri vill ekki gefa upplýsingar um það hversu margir hafa gengið úr flokknum að því er kemur fram í frétt Ríkisútvarpsins .

Um helgina tilkynnti Sigmundur Davíð um stofnun nýs stjórnmálaafls og hefur hann gefið það út að flokkurinn hans komi til með að bjóða fram í öllum kjördæmum. Af þeim fimm formönnum aðildarfélaga sem vilja ganga í flokk Sigmundar eru fjórir á höfuðborgarsvæðinu og einn á landsbyggðinni. Alls eru aðildarfélögin um hundrað talsins. Þá hafa formenn Framsóknarfélagsins í Reykjavík og félags ungra Framsóknarmanna í Reykjavík tilkynnt um úrsögn sína úr flokknum sem og öll stjórn félagsins í Mosfellsbæ.

Einnig hefur formaður félags Framsóknarkvenna í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi hefur einnig sagt skilið við flokkinn, sem og formaður Framsóknarfélags Þingeyinga. Þá hefur Þorsteinn Sæmundsson, fyrrverandi þingmaður, einnig sagt skilið við flokkinn.