Pierre de Villiers, yfirmaður franska hersins hefur sagt upp störfum í kjölfarið á því að fjárframlög til hersins voru skorin niður um 850 milljónir evra fyrir árið í ár. Í tilkynningu sem hershöfðinginn sendi frá sér segir de Villiers að niðurskurðaraðgerðirnar ógni öryggi Frakklands og hann sjái sér ekki fært að tryggja öryggi landsins og borgara þess.

De Villiers og Emmanuel Macron forseti Frakklands hafa átt í opinberum deidum eftir að ríkisstjórn Frakklands tilkynnti um niðurskurðaraðgerðirnar í síðustu viku. Niðurskurðurinn er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar um að lækka ríkisútgjöld Frakklands um 60 milljarða evra á næstu fimm árum.

Í jómfrúrræðu sinni í franska þinginu sagði Édouard Philippe, nýr forsætisráðherra Frakklands að landið væri fíkill í ríkisútgjöld eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um. Landið hefur átt í töluverðum fjárhagsvandræðum á síðustu árum. Halli hefur verið á fjárlögum þess síðustu 30 árin. Opinber útgjöld Frakklands á árinu 2016 námu 56% af vergri landsframleiðslu sem var hæsta hlutfallið meðal ríkja Evrópusambandsins. Þá námu skatttekjur ríkisins 48% af vergri landsframleiðslu sem var einnig hæsta hlutfallið innan ESB.