Youtube hefur ákveðið að herða reglur fyrir notendur sína sem ætla sér að hafa tekjur af myndböndum sínum. Nú munu notendur þurfa að minnsta kosti 1.000 einstaklinga í áskrift að efni þeirra til þess að geta fengið greitt fyrir það frá fyrirtækinu að því er kemur fram á vef BBC .

Auk þess hefur Youtube sagt að starfsmenn þess muni fara yfir öll myndskeið áður en þau eru sett inn í mengi þeirra myndbanda sem auglýsingar stórra vörumerkja geta birst hjá.

Ákvörðun Youtube kemur í kjölfarið á hrinu hneykslismála þar sem sumir auglýsendur hafa tilkynnt að þeir myndu sniðganga Youtube. Meðal hneykslismála var afar umdeilt myndband af líki sjálfsvígsfórnarlambs. Einn viðmælandi BBC segir að Google, eigandi Youtube, bregðist of hægt við.