Bresk yfirvöld vinna ötullega að því að umbylta orkukerfi sínu. Þau hafa sett fram metnaðarfullar áætlanir um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda við orkuframleiðslu um 90% (miðað við 1990) næstu 20 árin. Þetta leiðir nú til þess að Bretar leita allra leiða til þess að komast yfir áreiðanlega kolefnislausa orku. Þar að auki eru mörg orkuver þar í landi með starfsleyfi sem renna út á næstu árum. Þessi starfsleyfi verða í mörgum tilfellum ekki endurnýjuð vegna loftslagssjónarmiða. Þetta er metnaðarfull áætlun sem er að reynast Bretum bæði dýr og erfið í framkvæmd.

Lokanir á breskum orkuverum haldast ekki í hendur við minnkandi eftirspurn eftir rafmagni, þvert á móti er gert ráð fyrir að hún muni aukast um fimmtung á næstu 20 árum.

Væntingum um aukna eftirspurn eftir rafmagni verður að mæta með uppsettu afli sem getur tryggt að ekki komi til rafmagnsleysis. Eins og sjá má á myndinni um uppsett afl í breska orkukerfinu, er gert ráð fyrir mjög breyttri samsetningu kerfisins. Kol, sem í dag eru um fimmtungur breskrar orkuframleiðslu, eru á útleið og eiga að heyra sögunni til árið 2025. Þá blasir við að hlutur endurnýjanlegrar orku á að stóraukast á tímabilinu. Búist er við að uppsett afl endurnýjanlegra orkugjafa árið 2035 verði 64 GW eða 45% af heildarafli. Þar á eftir er gert ráð fyrir að uppsett afl gasorkuvera verði tæpur fjórðungur og að kjarnorka muni vera um sjöundi hluti uppsetts afls. Það er einnig eftirtektarvert fyrir okkur Íslendinga að Bretar gera ráð fyrir því að sæstrengir muni sjá þeim fyrir 11 GW af uppsettu afli.

Gangi þessar spár DECC (breska orkumálaráðuneytið) eftir munu fylgja miklar fjárfestingar í endurnýjanlegum orkugjöfum sem verð- ur að miklu leyti í vindorku. Þar standa Bretar illa að vígi. Samkvæmt nýlegri spá Alþjóðaorkumálastofnunarinnar er framleiðslukostnaður vindorku á landi líklegur til að haldast mun hærri en í nágrannalöndum. Þannig gerir stofnunin ráð fyrir að vindorka á landi muni verða nálægt því 50% dýrari í Bretlandi en í Hollandi árið, tvöfalt dýrari en í Danmörku og um þriðjungi dýrari en í Frakklandi og Þýskalandi.

Samkeppnisstaða Breta er hlutfallslega betri þegar það kemur að framleiðslu vindorku á hafi en það er mun dýrari framleiðslukostur og mun líklega verða það áfram.

Gangi spár DECC um samsetningu orkukerfisins eftir verður einnig umtalsverð fjárfesting í kjarnorku. Á því sviði hafa Bretar gert samning um að greiða Hinkley Point C kjarnorkuverinu um 140 USD/MWst og þeir hafa nýlega lýst því yfir að til standi að byggja tvö kjarnorkuver til viðbótar. Það bendir því flest til þess að rafmagnsverð í Bretlandi muni haldast hátt í fyrirsjáanlegri framtíð.

Tækifæri Íslands

Spár DECC gera ráð fyrir því að Bretar muni auka tengingar sínar við önnur orkukerfi upp í 11 GW. Núverandi tengingar eru samtals 3,75 GW en auk þess eru sæstrengir upp á 7,3 GW komnir í matsferli. Sæstrengur milli Íslands og Bretlands er ekki á meðal þeirra en þar eru strengir Danmerkur og þrír viðbótarstrengir til Frakklands. Það er athyglisvert því framleiðslukostnaður rafmagns í Danmörku er mun hærri en hér á landi og strengur frá Bretlandi til Danmerkur yrði nálægt því jafn langur og milli Íslands og Bretlands. Auk þess er orkuframleiðsla í báðum þessum löndum háð losun gróðurhúsalofttegunda, sem er ekki tilfellið hér á Íslandi.

Þegar tölur um orkuþörf, losun gróðurhúsalofttegunda og framleiðslukostnað eru skoðaðar má sjá tækifæri fyrir Íslendinga að nýta sér samkeppnisforskot sitt í framleiðslu ódýrrar endurnýjanlegrar raforku. Á síðasta ári fékk Landsvirkjun um 25,9 USD/MWst fyrir raforku með flutningi. Það er minna en sjötti hluti þess sem Bretar þurfa að greiða fyrir framleiðslu á vindorku á hafi án flutnings. Tíðar heimsóknir breskra ráðamanna undanfarin misseri eru áhugaverðar í þessu samhengi.

Orkuþörf Bretlands, Aðsend grein 29. október 2015
Orkuþörf Bretlands, Aðsend grein 29. október 2015
© vb.is (vb.is)