Félagaskiptaglugginn í stærstu knattspyrnudeildum Evrópu lokaði í gær. Hér er listi yfir tuttugu dýrustu leikmannakaupin samkvæmt tölum frá Transfermarkt.

Liðin í ensku úrvalsdeildinni eru áberandi á listanum, en 15 af 20 dýrustu leikmannakaupunum eru hjá enskum liðum. Þar af eru Chelsea og Manchester United með þrjá leikmenn hvor, Manchester City og Spurs með tvo og Arsenal, Liverpool, Newcastle, West Ham og Wolves einn hvor.

Í efsta sæti er brasilíski sóknarmaðurinn Antony sem Manchester United keypti á 82 milljónir punda frá Ajax. Hinn 22 ára Antony kom til Ajax frá São Paulo árið 2020 á 13,6 milljónir punda. Hann spilaði 82 leiki fyrir hollensku meistarana og skoraði 25 mörk.

Í öðru sæti er franski miðvörðurinn Wesley Fofana sem Chelsea keypti á 70 milljónir punda frá Leicester City. Hinn 21 ára Fofana kom til Leicester frá Saint-Etienne árið 2020 á 30 milljónir punda og spilaði 52 leiki fyrir liðið.

Í þriðja sæti er franski miðjumaðurinn Aurélien Tchouaméni sem Real Madrid keypti á 69 milljónir punda frá AS Monaco. Hinn 22 ára Tchouaméni kom til Monaco frá Bordeaux árið 2020 á 15,6 milljónir punda og spilaði 74 leiki fyrir liðið.

Í fjórða sæti er úrúgvæski sóknarmaðurinn Darwin Núñez sem Liverpool keypti á 65 milljónir punda frá Benfica. Hinn 23 ára Núñez kom til Benfica frá Almería árið 2020 á 29,4 milljónir punda. Hann spilaði 87 leiki fyrir Benfica og skoraði 48 mörk.

Í fimmta sæti er brasilíski miðjumaðurinn Casemiro sem Manchester United keypti á 61 milljón pund frá Real Madrid. Hinn 30 ára Casemiro spilaði hjá Madrid í tæp tíu ár og vann 18 titla sem leikmaður félagsins.