Sjálfseignarstofnunin Myndlistaskólinn í Reykjavík hefur gengið frá kaupum á 3.983 fermetra atvinnuhúsnæði að Rauðarárstíg 10 við Hlemm í miðbæ Reykjavíkur. Kaupverð eignarinnar nam tæplega 956 milljónum króna en seljandi er ríkissjóður Íslands.
Sjálfseignarstofnunin Myndlistaskólinn í Reykjavík hefur gengið frá kaupum á 3.983 fermetra atvinnuhúsnæði að Rauðarárstíg 10 við Hlemm í miðbæ Reykjavíkur. Kaupverð eignarinnar nam tæplega 956 milljónum króna en seljandi er ríkissjóður Íslands.
Geislavarnir ríkisins eru til húsa í hluta af húsnæðinu en samkvæmt kaupsamningi leitar ríkið nú að nýju húsnæði fyrir stofnunina. Þá kemur fram að til viðbótar við kaupverð muni kaupendur greiða endurgjald vegna hugsanlegs byggingarréttar. Fái kaupandi samþykkt aukið byggingarmagn í gegnum breytingu á deiliskipulagi skal hann greiða 30 þúsund krónur fyrir hvern fermetra af auknu byggingarmagni.
Myndlistaskólinn var um aldarfjórðungsskeið til húsa í JL húsinu í Vesturbæ Reykjavíkur en fyrir um tveimur árum var greint frá því að Þorpið vistfélag hafi keypt húsið af Myndlistaskólanum og Íslandsbanka. Í tilkynningu á vef skólans kemur fram að flutningar í nýtt húsnæði hafi farið fram um síðustu mánaðamót.
Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.