„Ég hef starfað við Háskólann á Bifröst í tæpan áratug og sinnt stöðu markaðsstjóra sl. fimm ár. Ég er að taka MBA í markaðsfræðum við Glyndwr Háskólann í Wrexham sem verður spennandi,” segir James. Hann svarar hér nokkrum spurningum um bíla.

Hvenær byrjaðir þú að fá áhuga á bílum?

„Bíladellan byrjaði á barnsaldri þegar ég fór með föður mínum til Fort Lauderdale. Ég hef líklega verið 7 ára þegar ég fór fyrst þarna út. Fort Lauderdale er elliheimili vel stæðra og þar er mikið af flottum bílum. Ég man eftir mér þar sem ég var 7 ára með einnota myndavél að taka mynd af glæsikerrunum þarna á svæðinu. Þarna komst maður í fyrsta skipti í tæri við alvöru kerrur. Við feðgarnir fórum nokkrum sinnum til Fort Lauderdale og það var alltaf sama sagan. Ég tók með mér einnota myndavélar að mynda bíla meðan pabbi var á ströndinni.“

Sturlaður bíll

Hver er eftirminnilegasti bíllinn sem þú hefur keyrt?

„Ég hef reynsluekið mörgum flottum bílum í þættinum en Polestar 1 er mér efst í huga. Tveggja dyra Grand Coupé og fyrsti bíllinn sem Polestar framleiðir og einn af 1.500 sem þeir framleiða. Þetta er 609 hestafla kerra sem var mjög gaman að keyra. Tilfinningin var engu lík. Þetta er sturlaður bíll.“

Hver er eftirminnilegasta akstursferðin?

„Árið 2006 keyrði ég með pabba mínum frá Selfossi til Alicante. Við keyrðum milli átta mismunandi landa á sjö dögum með þeim löndum meðtöldum sem Norræna stoppaði í. Við vorum á 89 módeli af BMW 735iA. E32 bóddíð. Geggjaður bíll. Þetta var frábær ferð í alla staði. Það var sérlega eftirminnilegt að rúnta yfir Pýreneafjöllin á landamærum Frakklands og Spánar. Það var ekkert GPS með í för heldur bara bréfakort.“

Nánar er rætt við James í fylgiritinu Bílar sem fylgdi nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins á miðvikudag.