Róbert Wessman er einn af fremstu frumkvöðlum Íslands á sviði lyfjaiðnaðar og hefur á síðustu tveimur áratugum byggt upp alþjóðleg fyrirtæki sem hafa sett mark sitt á heimsvísu. Sem stofnandi og forstjóri Alvogen og Alvotech hefur hann leitt þróun á nýjum hliðstæðulyfjum sem hafa aukið aðgengi sjúklinga að nauðsynlegum lyfjum um allan heim.
Nýjasta verkefni hans og eiginkonu hans Kseniu er víngerðin Maison Wessman, þar sem þau stíga sín fyrstu skref inn í vínheiminn. Víngerðin er staðsett í Bergerac í Frakklandi og hefur þegar vakið athygli fyrir hágæða vín, sem endurspegla bæði hefðir svæðisins og nýsköpun í framleiðsluferlinu.
Róbert Wessman er einn af fremstu frumkvöðlum Íslands á sviði lyfjaiðnaðar og hefur á síðustu tveimur áratugum byggt upp alþjóðleg fyrirtæki sem hafa sett mark sitt á heimsvísu. Sem stofnandi og forstjóri Alvogen og Alvotech hefur hann leitt þróun á nýjum hliðstæðulyfjum sem hafa aukið aðgengi sjúklinga að nauðsynlegum lyfjum um allan heim.
Nýjasta verkefni hans og eiginkonu hans Kseniu er víngerðin Maison Wessman, þar sem þau stíga sín fyrstu skref inn í vínheiminn. Víngerðin er staðsett í Bergerac í Frakklandi og hefur þegar vakið athygli fyrir hágæða vín, sem endurspegla bæði hefðir svæðisins og nýsköpun í framleiðsluferlinu.
Vildi byrja frá grunni
Við sitjum með Róberti Wessman í kastalanum hans, Château de Saint Cernin, í Bergerac, þar sem hann ásamt eiginkonu sinni og teymi, hefur byggt upp eina af merkustu vínekrum svæðisins. Blaðamanni var boðið að heimsækja víngerðina, til að kanna aðstæður og taka þátt í blöndun á nýjustu árgerðinni af La Folie, einu af einkennisvínum Maison Wessman.
„Ég er búinn að vera með þennan kastala í tuttugu ár og hugsunin var að tengja vínið við það. Kastalinn er 1000 ára gamall og hér hefur verið í vínframleiðsla í gegnum tíðina og ég vildi endurvekja hana. Það er mjög sjaldgæft að menn byrji frá grunni í Frakklandi á nýju víni, menn kannski kaupa gamlan víngarð og uppskala hann. En mig langaði að gera þetta frá byrjun.“
„Ég ætlaði ekkert að fara stærra en nokkur þúsund flöskur en svo gerist það 2017 að við vorum valin besti vínframleiðandinn af yfir þúsund framleiðendum í öllu héraðinu. Við vorum beðin að koma upp á svið til að taka við verðlaunum. Þeir sem höfðu verið í öðru og þriðja sæti töluðu frönsku í hálftíma hvor. Spyrillinn talaði ekki eitt orð í ensku og byrjaði að spyrja mig spurninga á frönsku. Ég reyndi að svara eftir bestu getu á ensku og enginn skildi neitt. Við stóðum þarna fyrir framan alla, sem voru ekkert sérstaklega ánægðir með að það væru einhverjir frá Íslandi að vinna, þetta eru svona Nóbelsverðlaunin í víni. Eftir svona óþægilegar fimm mínútur er einhver aftast sem öskrar Ísland! Húh! og allir fylgdu með. Allt í einu voru 500 víngerðarmenn byrjaðir að kyrja húh, þannig að víkingaklappið endaði með að vera vinningsræðan.“
Eftir þessar góðu viðtökur ákváðu þau að stækka við sig og eru að framleiða um 500.000 flöskur í ár.
„Við erum einn af stærstu framleiðendunum í héraðinu, ef ekki sá stærsti. Erum að vaxa um allan heim og erum með hvítvín, rauðvín, rósavín, sætvín, freyðivín og kampavín. Það eru mismunandi verðflokkar og mismunandi gæði, en við erum að selja í líklega 15 mismunandi löndum í dag.“
Blanda fyrir þá forvitnu
Róbert segir víngerðina vera fyrst og fremst áhugamál fyrir sér. Hann segist hafa gott nef fyrir víni og sé svo heppinn að hafa fengið þá allra bestu með sér í verkefnið.
„Ég er náttúrulega með frábæran hóp í þessu. Við erum með Andreas Larsson sem vann heimsmeistaratitilinn í Sommelier og Michel Rolland sem hefur sennilega komið að öllum bestu vínum í Bordeaux, Kaliforníu og á Ítalíu. Þetta er sérfyrirtæki rekið af teymi og eitthvað sem ég verð meira virkur í þegar ég fer á eftirlaun.“
Vínið sem er til blöndunar nefnist „La Folie“, eða „brjálæði“ á íslensku, og er óvenjuleg vínblanda sem Róbert fékk hugmyndina að, til þess að vekja athygli á víngerðinni.
„Þetta er mjög skemmtilegt vín. Menn eru almennt ekki að blanda saman víni frá mismunandi löndum. Við gerum bæði vín eftir hefðinni en svo er aðeins farið út í móa að gera eitthvað nýtt. Það hjálpar okkur að komast inn á nýja markaði, La Folie seldist upp á þremur vikum í fyrra. Í ár er þetta blanda af Merlot, Cabernet Sauvignion og Cabernet Franc, Syrah frá Suður-Frakklandi og Rioja frá Spáni og svo Merlot frá Ítalíu. Þú kaupir hvergi svona flösku, þetta er fyrir þá fyrir þá sem eru forvitnir og langar að prófa eitthvað nýtt. Þeim sem eru komnir lengst í vínbransanum finnst þetta kannski ekkert voðalega sniðugt, en okkur finnst það.“
Keppnisskapið alltaf til staðar
Róbert segir keppnisskapið vera hluta þess sem drífur hann áfram í öllu sem hann gerir.
„Ég hef alltaf verið svona, ég er lesblindur, var ekki mikið að lesa bækur en gekk alltaf vel í skóla en ég hef líka þurft að leggja mikið á mig og hef alltaf verið með gríðarlegt keppnisskap.“
Eins og margir lesendur þekkja þá stundaði Róbert hjólreiðar af miklu kappi þar til hann lenti í alvarlegu slysi þegar hann hjólaði á bíl, hryggbrotnaði og var rúmliggjandi í nokkra mánuði.
„Ég byrjaði að hjóla fertugur, þetta er svipað og einhver byrji æfa fótbolta fertugur og endi á því að spila með KR. Ég var að keppa í time trial og var þá að keppa um fyrstu sætin, 42 ára gamall við 25 ára gamla stráka.“
„Ég hef bara svo gaman af að búa eitthvað til, ég er ekkert að keppa við neinn annan, en ég keppi mjög oft við sjálfan mig. Mér finnst að allir eigi að klára það sem þeir byrja á og skila sínu. Maður horfir á byrjunina og horfir á hvar maður ætlar að enda og oft er leiðin að endanum aðeins öðruvísi en þú ætlaðir þér en maður endar alltaf á þeim stað sem maður ætlar að enda á. Það er það sem skiptir mestu máli, maður kemur alltaf í mark á hjólinu þó að maður hafi aðeins þurft að taka aðra beygju.“
Lækningar eða viðskipti
Þegar Róbert stundaði nám við Menntaskólann við Sund, stefndi hann á að verða læknir, en endaði á að skrá sig bæði í læknisfræði og viðskiptafræði.
„Háskóli Íslands var búinn að gefa mér fram á föstudag á viku þrjú að ákveða hvort ég færi í. Ég fer svo á skrifstofuna tíu mínútur í lokun og var ekki enn búinn að ákveða mig þannig að ég kastaði upp á það og upp kom viðskiptafræði, en svo endaði ég samt í lyfjabransanum.“
Hann segir vinnuna vera fyrst og fremst ástríðu og hún sé drifkraftur alls þess sem hann hefur afrekað.
„Ef þetta snerist bara um peninga þá hefði ég ekki getað búið til fimm alþjóðleg lyfjafyrirtæki. Þetta þarf að snúast um að vera með ákveðna sýn og ástríðu. Ef þú horfir á þessi lyfjafyrirtæki sem ég hef byggt upp, þá hef ég bara þessa sýn og ég er ekkert mikið að spá í hvað aðrir eru að gera.“
Alvotech stærsta verkefnið
Róbert segir Alvotech eiga hug hans allan og að hann sé með skýra framtíðarsýn fyrir fyrirtækið.
„Alvotech er númer eitt, tvö og tíu í dag. Þetta er stærsta félagið á Íslandi og á eftir að verða eitt af stærri félögum í Skandinavíu. Það er alveg klárt að ég tímasetti Alvotech alveg fullkomlega, ekki of snemma og ekki of seint, við erum alveg í kjörstöðu með að ná markaðshlutdeild á öllum lykilmörkuðum í heiminum. Við erum með réttu lyfin á réttum tíma og frábæra aðstöðu.“ Hann segir tækifærið ótrúlegt fyrir félagið og að hann leggi mikið á sig til þess að skila verkefninu vel frá sér.
„Ég náttúrulega vinn alveg myrkranna á milli. Auðvitað er þetta krefjandi en ég ætla að skila þessu af mér alveg gríðarlega vel af því að tækifærið fyrir starfsmenn, hluthafa og Ísland, að vera með svona stórt félag á Íslandi, er alveg magnað.“
Framtíðin í líftæknilyfjum
Róbert segir að meirihluti veltu á lyfjamarkaði í framtíðinni muni líklega verða vegna líftæknilyfja. Með þessari tegund lyfja hafi náðst mikill árangur í meðferð við gigtarsjúkdómum, krabbameini og fleiri sjúkdómum. Þau séu því farin að skipta sköpum í meðferð við þrálátum sjúkdómum.
„Í dag eru 40% af allri heimsveltu lyfja vegna líftæknilyfja en 60% af nýjum lyfjum í þróun eru líftæknilyf, svo þessi hlutdeild á eftir að aukast. Frumlyf eru með einkaleyfi í 20 ár, eða um 10 ár á markaði, 10 ár í þróun þannig að frumlyfin eru afar dýr, ársskammtur af sumum líftæknilyfjum kostar allt upp í 150.000 dollara. Þetta er allt of dýrt þannig að ef við getum komið inn og boðið þessi lyf á umtalsvert betri kjörum þá getum við gert þessi lyf aðgengileg fyrir fólk sem gæti annars ekki fengið þau.“
„Þegar Alvotech byrjaði að þróa fyrsta lyfið, hliðstæðu við Humira, var það söluhæsta lyf í heimi. Ársskammtur af frumlyfinu kostaði 90.000 dollara, það eru 12 milljónir á einstakling. Og bara brot af þeim sem þurfa á lyfinu að halda, fá það. Í mörgum löndum er það þannig að ef lyfjakostnaður er borgaður af ríkinu þá er einhver ákveðin upphæð sem er til ráðstöfunar til þess að eyða í líftæknilyf en ef hún er búin þá fá ekki fleiri lyfin, þó þeir þurfi á þeim að halda. En með okkar hliðstæðulyfjum er hægt að kaupa margfalt meira magn fyrir sömu fjárhæð.“
Ætlaði aldrei að verða forstjóri aftur
Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) veitti Alvotech leyfi til sölu og markaðssetningar í Bandaríkjunum á Simlandi (adalimumab-ryvk), sem líftæknilyfjahliðstæðu við Humira í febrúar á þessu ári. Áður en leyfið fékkst hafði FDA synjað umsókn um markaðsleyfi í tvígang og þurfti félagið að sækja sér aukið fjármagn til að standa straum af rekstri. Til að tryggja samþykki FDA tók Róbert við sem forstjóri Alvotech.
„Í gegnum minn feril í lyfjageiranum hef ég komið 30 verksmiðjum í gegnum þetta ferli en það er eitt að vera stjórnarformaður og annað að vera forstjóri og þess vegna þurfti ég að taka við til þess að tryggja að við kæmum verksmiðjunni í gegn. Ég hef sagt stjórninni að ég sé tilbúinn að vera þarna á meðan ég finn að fyrirtækið þarf á mér að halda. Það er ekki á margra færi að byggja svona upp, sérstaklega frá grunni. Að reka svona félag er kannski aðeins öðruvísi en þú finnur ekki marga sem geta búið til svona félag og ég er búinn að gera það fimm sinnum.
„Til þess að geta þetta þarftu þekkingu en þú þarft líka karakterinn og framsýnina. Eins og þegar AbbVie breytti um lyfjaform á Humira þá efaðist ég ekki um þeir myndu taka lyfið í lægri styrkleika af markaði og einbeita sér að koma sjúklingum yfir á nýja útgáfu af lyfinu í hærri styrkleika. Ég var búinn að eyða mörgum milljörðum króna í að þróa útgáfu af hliðstæðu fyrir lægri styrkleikann, en hætti þeirri þróun daginn sem AbbVie fór af stað í Evrópu með hærri styrkleikann. Við settum allan kraft í að þróa lyfið í hærri styrkleika og enduðum í lykilstöðu á markaði út af þeirri ákvörðun. Auðvitað er mikið af þessu þekking og reynsla, en karakter og hyggjuvit getur skipt sköpum. Það er bara þannig að þessi ákvörðun hefði ekki getað verið tekin í Excel.“
Ætlar að eyða eftirlaunaárunum í frönsku sveitinni
Róbert segir að þar sem Alvotech eigi hug hans allan, þurfi vínið því miður þurfa að vera áhugamál í bili, en hann stefni á að setjast að í Frakklandi þegar hann er kominn á eftirlaun.
„Ég hef alltaf haft það bak við eyrað að setjast í helgan stein hér, ég elska Frakkland og þetta hérað. Það er gott að vera byrjaður að dunda sér við eitthvað, af því að þegar maður hættir að vinna einn daginn þarf maður samt að hafa eitthvað að gera. Ég verð 55 ára í ár og einn daginn þegar ég fer að taka því rólega og gera það sem ég hef gaman af, þá verður það örugglega að hjóla í sveitinni og tékka á vínberjunum.“
Viðtalið við Róbert Wessman er úr nýjasta tölublaði Eftir vinnu. Hér er hægt að lesa blaðið í heild.