RX 500h F Sport er afkastamikill sportjeppi með miklum lúxus. Bíllinn sækir afl í glænýja hybrid-hönnun sem samanstendur af 2,4 lítra túrbóvél og sex þrepa sjálfskiptingu sem tryggja 371 hestafl og hröðun 0–100 km/ klst. á 6,2 sekúndum. Togið er 550 Nm.
Þetta er öflugasti sportjeppinn sem ég hef prófað frá Lexus. Aksturinn er mjúkur og skemmtilegur ekki síst fyrir þær sakir að hann er frekar fljótur upp. Það eru alltaf lúxuseiginleikar sem einkenna akstur á Lexus bílum en stundum finnst mér hafa vantað upp á aflið. Hér er yfir engu slíku að kvarta.
Lúxus og afl tryggir hámarks akstursánægju í þessum bíl. DIRECT4-akstursátakskerfið eykur tenginguna milli vegar og stýris og tryggir framúrskarandi akstursstöðugleika, jafnt á hægum sem hröðum akstri. Auk þess er F Sport útfærslan með ýmsar kraftmiklar viðbætur, þar á meðal sportlegri fjöðrunarstillingu, stærra hemlakerfi o.s.frv.
Byggður á GA-K undirvagninum
Rafmótorinn að framan er á milli vélarinnar og gírkassans; hann er með kúplingu á báðum hliðum sem skilar miklum sveigjanleika við inngjöf. Að aftanverðu er að finna 80 kW e-Axle, netta samstæðu við afturhjól sem samanstendur af mótor, gírum og stjórntölvu.
Undirstöðuatriði hafa verið fínstillt, svo sem þyngdarmiðja, tregðugildi, þyngdarminnkun, stífleiki og aflrásir, til að leggja grunninn að náttúrulegri tengingu á milli bíls og ökumanns. Nýr RX er byggður á GA-K undirvagninum og afturhluti bílsins hefur verið endurhannaður frá grunni til að tryggja enn nákvæmari fjöðrun. Þetta býður upp á enn meiri afkastagetu, þægindi og fágun.
Nánar er fjallað um Lexus RX 500h F Sport í fylgiritinu Bílar sem fylgdi nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins á miðvikudag.