Nú eru komin jól og víða um Bandaríkin hafa borgir og bæir klætt sig í jólabúninginn. Fátt jafnast á við að fara í ferðalag til Bandaríkjanna á þessum tíma árs og kynna sér jólahefðir þar í landi. Sumir ákveða að nýta tækifærið og klára að kaupa jólagjafir á meðan aðrir vilja heldur geyma jólastressið og njóta þess að hafa það notalegt. Viðskiptablaðið tók saman nokkrar borgir og bæi sem eru þekkt fyrir að veita ferðalöngum magnaða jólaupplifun og skarta sínu fegursta á þessum árstíma.

New York

Ófáir Íslendingar hafa heimsótt Stóra eplið, eins og borgin er oft kölluð. Borgin er vinsæll áfangastaður fyrir ferðamenn allan ársins hring, enda möguleikarnir sem borgin býður upp á nánast endalausir. Líkt og sjá má í hinum ýmsu jólakvikmyndum þá kunna New York búar svo sannarlega að fagna jólunum. Mikil viðhöfn er þegar kveikt er á ljósum hins fræga jólatrés á Rockefeller-torgi. Á umræddu torgi er sömuleiðis hægt að renna sér á skautum og dást um leið að trénu glæsilega. Vart þarf að taka fram að tilvalið er að klára jólagjafainnkaupin í hinum fjölmörgu verslunum sem borgin hefur upp á að bjóða. Fyrir okkur Íslendinga er lítið mál að skreppa til New York, enda býður Icelandair upp á daglegt flug til borgarinnar allt árið um kring.

Jólabærinn í Norður-Karólínu

Rétt fyrir utan borgina Charlotte í Norður-Karólínu má finna lítinn smábæ sem í ellefu mánuði ársins heitir McAdenville, en í desember ár hvert er nafni bæjarins breytt yfir í Christmas Town USA. Innan við þúsund manns búa í bænum en í desember ár hvert heimsækir fjöldi manna Jólabæinn. Hvert einasta tré bæjarins, sem eru 375 talsins, er skreytt og samanlagður fjöldi jólaljósa er talinn vera um 450.000. Í byrjun desember á hverju ári er kveikt á jólaljósunum við hátíðlega athöfn og er kveikt á ljósunum fram á annan í jólum. Þeir Íslendingar sem vilja heimsækja Jólabæinn geta átt von á nokkuð löngu ferðalagi, enda býður ekkert flugfélag upp á beint flug til Charlotte.

Jólabærinn í Norður-Karólínu
Jólabærinn í Norður-Karólínu

Chicago

Jólabúningurinn fer þriðju stærsta borg Bandaríkjanna, eða borg vindanna eins og hún er oft kölluð, einstaklega vel. Þrátt fyrir mikinn vetrarkulda kjósa fjölmargir ferðalangar að heimsækja borgina á ári hverju yfir hátíðarnar. Meðal vinsælustu dægrastyttinga ferðamanna sem og heimamanna í aðdraganda jóla er að heimsækja stærsta þýska jólamarkað sem staðsettur er utan Þýskalands, en hann ber heitið Christkindlmarket. Einnig er vinsælt að renna sér á skautum við rætur jólatrésins í Millenium garðinum. Borgin hentar sömuleiðis vel fyrir þá sem vilja klára jólagjafainnkaupin. Líkt og í tilfelli New York er lítið mál fyrir Íslendinga að skella sér til Chicago, en Icelandair býður upp á beint flug til borgarinnar á degi hverjum.

Chicago - Jól
Chicago - Jól

Branson í Missouri

Á hverju ári í desember fer mánaðarlanga hátíðin Ozark Mountain Christmas fram í bænum Branson. Á hátíðinni er meðal annars hægt að koma sér í jólaskapið með því að fara á tónleika, ljósasýningar og taka þátt í jólaskrúðgöngum. Þá geta gestir hátíðarinnar einnig hoppað um borð í Polar Express lestina, en upplifunin ku líkjast því að stíga inn í samnefnda jólakvikmynd. Allur bærinn er skreyttur hátt og lágt yfir hátíðarnar, því er um að gera að rölta um götur bæjarins og drekka í sig anda jólanna. Íslenskir ferðalangar sem ætla sér að heimsækja bæinn hafa skiljanlega ekki möguleika á beinu flugi til Branson. En þeir geta t.d. flogið til Chicago og tekið innanlandsflug yfir til Branson, en umrætt flug tekur tæplega tvær klukkustundir.

Branson í Missouri - Jól
Branson í Missouri - Jól

Norðurpóllinn í Alaska

Já mikið rétt, Norðurpóllinn er líka í Bandaríkjunum. Um er að ræða lítinn smábæ í Alaska þar sem íbúafjöldinn er rétt yfir tvö þúsund manns. Líkt og hefði mátt búast við gera er jólunum gert hátt undir höfði og má segja að það kristallist í mottói bæjarins, sem er að jólaandinn ríkir allt árið um kring. Hús jólasveinsins er í bænum og berast þúsundir bréfa frá eftirvæntingarfullum börnum þangað hver jól. Og sem meira er, þá svarar jólasveinninn hverju einasta bréfi sem honum berst. Þeir Íslendingar sem hyggjast heimsækja Norðurpólinn geta flogið með Icelandair til Anchorage í Alaska, en félagið flýgur þangað reglulega allt árið um kring. Frá Anchorage er annaðhvort hægt að keyra til Norðurpólsins, sem tekur um 6 klukkustundir, eða að leggja í klukkustundar langt flug.

Norðurpóllinn í Alaska
Norðurpóllinn í Alaska