Í tilefni þess að tíu ár eru liðin síðan BL kynnti fyrsta rafbílinn í sýningarsal fyrirtækisins við Sævarhöfða blæs fyrirtækið til sérstakrar sýningar við Sævarhöfða og hjá Hyundai við Kauptún í Garðabæ næstkomandi laugardag.

Þegar rafbílavegferð BL hófst með frumsýningu Nissan Leaf 31. ágúst 2013 var hlutfall rafbíla í nýskráningum fólksbíla í heild hér á landi einungis 0,6%. Þetta hlutfall er í dag 39,4% á heildarmarkaðnum og enn hærra á einstaklingsmarkaði eða 67,9%.

„Þróun rafbílavæðingar hér á landi hefur verið í miklum vexti síðustu ár og bendir flest til þess að með sama áframhaldi verði rafbílar svo til allsráðandi á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði eftir 2-3 ár. Hins vegar gæti raunin orðið önnur ef ívilnanir verða felldar niður á einu bretti eins og stefnir í um næstu áramót. Það mun hægja á þróuninni og líklegast hliðra henni til um 4-5 ár eða þar til framleiðslukostnaður rafbíla verður orðinn svipaður framleiðslukostnaði bensín- og dísilbíla,“ segir Brynjar Elefsen framkvæmdastjóri sölusviðs BL.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Síðan 2013 hefur fjöldi hleðslustöðva einnig margfaldast og sem dæmi má nefna að nú rekur Ísorka, systurfyrirtæki BL, hleðslunet sem telur um 900 stöðvar. Þar af finnast hraðhleðslustöðvar á 26 stöðum um allt land, sem geta alls hlaðið 120 bíla samtímis.

Á rafbílasýningunni á laugardag verða meðal annars hinir margverðlaunuðu IONIQ 5 og Hyundai 6 í sviðsljósinu og reynsluakstursbílar til taks. Þar að auki verða Ariya, nýjasti rafbíll Nissan, auk nýjustu rafbílanna frá BMW, Renault, MG, Hongqi og Subaru sýndir.