Á dögunum öðlaðist chilipiparinn Pepper X titilinn sem sterkasti chilipipar í heimi en fram til þessa hafði piparinn Carolina Reaper verið í fyrsta sæti.

Piparinn var ræktaður af Ed Currie, sem rekur fyrirtækið Puckerbutt Pepper Company, og mælist nýi piparinn 2.69 milljónir á Scoville-skala. Til samanburðar mælist Carolina Reaper, næststerkasti chilipipar heims, með 1.64 milljón í Scoville.

Ed segir að það hafi tekið hann tíu ár að rækta þennan chilipipar en hann á einnig heiðurinn að því að hafa framleitt Carolina Reaper piparinn.

Carolina Reaper, næststerkasti chilipipar heims, mælist með 1.64 milljón í Scoville.
© Wikimedia Commons (Wikipedia)

Pepper X var frumsýndur í YouTube-þættinum Hot Ones en þátturinn er frægur fyrir að bjóða stórstjörnum til að mæta fyrir framan myndavél og smakka kjúklingavængi með sterkum sósum.

Samkvæmt frétt frá New York Post þá mun Ed hafa fengið gríðarlega krampa í fyrsta sinn sem hann smakkaði nýja piparinn og lá í fósturstellingu upp að vegg í rigningunni í tæpan klukkutíma með verki sem fylgdu honum næstu þrjá og hálfa tímana.

Eggert Smári Sigurðsson, stofnandi Smári‘s Volcano Sauce, hefur sjálfur smakkað chilipiparinn og segir að hann sé mjög góður en bæði piparinn og sósurnar sem framleiddar eru úr honum taka rosalega á.

„Það er smá ávaxtabragð af honum en síðan kemur svona vel beiskt bragð eftir á. Ég verð svo allur dofinn í kringum nefið og munninn og eftir smá tíma þá bara dofnar allt andlitið. Fyrir minn smekk þá finnst mér þetta rosalega góð sósa en ég er ekki að fara að henda henni á samloku.“

Sterkar sósur hafa orðið sífellt vinsælli meðal Íslendinga undanfarin ár og að sögn Eggerts er salan á sterkum sósum sérstaklega mikil í kringum bandarísku ofurskálina. Hann seldi einnig 70 kíló af sterkum kjúklingavængjum á sex klukkutímum á Goslokahátíðinni í Vestmannaeyjum í sumar.

Eggert mælir samt með að fólk vinni sig upp þegar kemur að sterkum mat og sósum. Hann segir að það sé sniðugt að byrja á einfaldri Tabasco-sósu og síðan getur það prufað sig áfram hægt og rólega því það getur verið mikið áfall fyrir líkamann að fara beint í það sterkasta.

„Það sem fólk má ekki gleyma er að þessi tilfinning sem þú finnur eftir að borða sterkt er meinlaus. Það er ekkert að skemmast, það er engin húð að brenna. Þetta er bara heilinn í þér sem segir þér að þetta sé sterkt,“ segir Eggert.