Alveg frá því að fyrsti kínverski veitingastaðurinn, Drekinn, leit dagsins ljós á Laugaveginum árið 1982 hafa Íslendingar verið duglegir að kynna sér austurlenska matargerð, enda er hún jafn framandi og fjölbreytt og hún er bragðgóð.

Fjölmargir asískir veitingastaðir hafa opnað síðan þá og eru nú Íslendingar farnir að gera skýran greinarmun á því hvaðan í Asíu ákveðinn réttur á sér rætur að rekja.

Alveg frá því að fyrsti kínverski veitingastaðurinn, Drekinn, leit dagsins ljós á Laugaveginum árið 1982 hafa Íslendingar verið duglegir að kynna sér austurlenska matargerð, enda er hún jafn framandi og fjölbreytt og hún er bragðgóð.

Fjölmargir asískir veitingastaðir hafa opnað síðan þá og eru nú Íslendingar farnir að gera skýran greinarmun á því hvaðan í Asíu ákveðinn réttur á sér rætur að rekja.

Margir hafa jafnvel farið skrefinu lengra og tekið upp á því að elda slíkan mat heima hjá sér. Í Reykjavík má til að mynda finna margar verslanir sem sérhæfa sig í asískum mat eins og Hi Market, Filipino Store, Fiska.is og Dai Phat í Skeifunni.

Vandamálið er hins vegar að þar sem vörur þessara verslana koma frá Asíu eru merkingar á umbúðum þeirra gjarnan allar á óskiljanlegum tungumálum, að minnsta kosti fyrir mörgum Íslendingum.

Viðskiptablaðið ákvað því að senda kínverskumælandi blaðamann til Dai Phat til að gefa lesendum betri innsýn inn í þennan heim og búa til nokkurs konar leiðarvísi fyrir þá sem vilja prufa sig áfram í asískri matargerð.

Fljótandi gómsæti

Asíska matarverslunin Dai Phat tók vel á móti blaðamanni og var afgreiðslustúlkan spennt að sýna allt sem verslunin hefur upp á að bjóða. Hún var fljót að minnast á hefðbundna súpurétti og sterkar pottasúpur.

Hægt er að nálgast ótal hráefni í Skeifunni en stúlkan mældi með tveimur vinsælum súpuréttum sem finnast í Asíu, pho-súpu frá Víetnam og kínverskt Hot Pot. Á meðfylgjandi myndum má sjá það sem kaupa þarf fyrir báða réttina.

Græna pakkningin inniheldur hrísgrjónanúðlur fyrir súpuna og fyrir neðan má sjá soðið sem er notað í súpuna ásamt kryddinu fyrir nautakjötið. Nautakjötssneiðarnar finnast frosnar í bláum pakka og er súpan frábær með víetnamskri Banh Mí-samloku.
© Helgi Steinar (Viðskiptablaðið)

Víetnömsk pho-súpa er ekki eins fyrirferðarmikil og margir myndu halda. Hægt er að finna ótal uppskriftir en hún samanstendur af hrísgrjónanúðlum, seyði, kjöti og grænmeti. Frosnar nautakjötsneiðar finnast í frystinum og er gott að muna eftir appelsínugula Bo Kho-kryddinu sem fer á kjötið.

Frosið Banh Mí-brauð er einnig selt frosið fyrir þá sem vilja njóta víetnamskrar samloku með heitu súpunni sinni.

Efst á myndinni má sjá kryddin sem mynda grunninn að kínverskum hot pot. Þegar potturinn byrjar að sjóða er svo frosnum lamba- og nautakjötssneiðum hent ofan í ásamt frosnum fiskibollum, sveppum eða bara hverju sem er.
© Helgi Steinar (Viðskiptablaðið)

Þeir sem eru spenntari fyrir kínverskum Hot Pot, súpuréttur þar sem vatnið er kryddað og haldið á lágum hita meðan hráum mat er sett ofan í jafnóðum, geta fundið mismunandi kryddtegundir og eru þær sem betur fer merktar á ensku.

Þegar hitinn í súpunni er kominn af stað er tilvalið að hafa keypt frosnar nauta- og lambakjötssneiðar ásamt sveppum og frosinni blöndu af fiskibollum og kröbbum.

Karríkjúklingur

Flestir hugsa eflaust til Indlands þegar minnst er á karrí og þó svo fáir geti toppað Indverja þegar kemur að dýrindis karríréttum þá leyna nágrannar þeirra í Asíu mjög á sér. Japanir eru til að mynda mjög hrifnir af katsu-karrí og til að finna þykkt og sætt karrí er gott að líta til Kína.

Mismunandi tegundir af Golden Curry finnast í asísku verslunum landsins.
© Helgi Steinar (Viðskiptablaðið)

Karríkrafturinn Golden Curry frá japanska fyrirtækinu S&B Foods hefur hjálpað Japönum og fleirum í Asíu að elda karrírétti síðan 1966. Kosturinn við Golden Curry er að krafturinn virkar nánast eins og karrísósurnar sem fást í íslenskum matvöruverslunum.

Ein vinsæl eldunaraðferð er að steikja skorinn kjúkling í potti, bæta svo við 500 ml af vatni ásamt skornum kartöflum, gulrótum og lauk. Þegar allt er farið að sjóða er kraftinum svo bætt við og mallast pottrétturinn í dýrindis karrírétt sem er svo borinn fram með hrísgrjónum.

Pakkanúðlur

Þegar kemur að asískum mat þá þarf ekki alltaf að hafa mikið fyrir honum. Neysla á pakkanúðlum, bæði í Asíu og á Vesturlöndum, hefur stóraukist undanfarin ár. Hluti af þessari aukningu er tilkominn vegna þess að fólk leitar nú eftir ódýrari mat í ljósi verðbólgu.

Ótal tegundir pakkanúðlna fást í hefðbundnum asískum verslunum.
© Helgi Steinar (Viðskiptablaðið)

Núðlurnar eru þó engu að síður bragðgóðar og í verslunum eins og Dai Phat er hægt að finna ótal tegundir af pakkanúðlum frá Kóreu, Kína og Víetnam. Margar tegundir fást ekki í íslenskum matvöruverslunum og er því tilvalið að prufa eitthvað nýtt.

Hægt er að fá úrval Ramen-núðlna, kóreskar Kimchi-núðlur og fyrir þá djörfustu eru einnig í boði nokkrar mismunandi tegundir af sterkustu pakkanúðlum heims, Buldak.

Kaffi og eftirréttir

Eigendur Dai Phat segjast flytja inn matinn frá Asíu en að hann komi fyrst í gegnum lönd eins og Holland og Svíþjóð til að tryggja að maturinn uppfylli ströngustu kröfur um matvælaöryggi innan Evrópusambandsins.

Það er ekki leiðinlegt að fara líka með börnin inn í asískar matvöruverslanir.
© Helgi Steinar (Viðskiptablaðið)

Þeir benda einnig á að matargerðin sjálf sé ekki alltaf svo ólík því sem vestrænir bragðlaukar ættu að venjast. Rétt eins og Íslendingar þá eru íbúar Asíulanda mikið fyrir sætindi og í versluninni finnast til að mynda krúttlegustu nammitegundir á borð við Hello Kitty-ávaxtahlaup, Mínu Mús-jarðarberjakökur og pandakökur með mjólkurte.

Slík sætindi eru fullkomin fyrir börnin í eftirrétt en fyrir þá sem eru vanari kaffi og kökum þá finnst einnig víetnamskt kaffi og kexkökur frá nánast öllum löndum innan Asíu.