Fjármálaráðgjafinn og fyrirlesarinn Björn Berg Gunnarsson hefur birt grein á heimasíðu sinni þar sem hann fer yfir nokkur ráð sem hafa ber í huga ef fólk vill spara sér pening meðan það er erlendis í fríi.

Hann segir fólki meðal annars að kynna sér vel aðstæður áfangastaðarins, til dæmis hvort og hve mikið þjórfé tíðkist að greiða og hvort það þurfi að passa á svindlurum.

Þegar kemur að greiðslum erlendis bendir Björn á fimm einföld ráð:

  • Í posa skaltu velja að greiða í gjaldmiðli þess lands sem þú ert í. Þá færðu líklega betra gengi
  • Forðastu aðra hraðbanka en þá sem eru staðsettir utan á eða inni í útibúi stórs banka. Það munar um að spara kostnaðinn sem fylgir slíku
  • Hugaðu að gengi og kostnaði sem fylgir notkun greiðslukorta á ferðalögum. Ertu með heppilegasta kortið?
  • Láttu frysta kortið þitt um leið og eitthvað virðist bogið. Þú getur gert það í appinu þínu
  • Greiðslur með síma og korti geta verið öruggari en kortagreiðslur

Björn segir að það sé einnig gott að fá að vita verð á þjónustu fyrirfram, til dæmis í leigubílum. Hann mælir jafnframt ekki með að tengjast fríu þráðlausu neti á ferðamannastöðum.

„Ef þú ert á leið úr landi eru engar afsakanir. Slepptu þessum leiðinlega Netflix-þætti í kvöld og byrjaðu að skipuleggja þig. Það er algjört aukaatriði hvort þér leiðist það, þú getur skemmt þér í fríinu. Lágmörkum líkurnar á óhöppum og svikum, óhóflegri neyslu og svívirðilegum gjöldum, óvæntum viðbótarkostnaði og óhagstæðu gengi. Hugsaðu þér hvað við getum fengið margt skemmtilegt í staðinn,“ skrifar Björn í lokin.