e Vito-sendibíllinn er notadrjúgur og mjög þægilegur eins og vænta má þegar Mercedes-Benz Vito er annars vegar. Skilvirkur rafmótorinn skilar allt að 85 kW eða 116 hestöflum til framhjólanna. Togið er 360 Nm.

Hámarkshraði bílsins er hámarkaður við 120km/klst. Stærð rafhlöðu er 60 kWh og bíllinn dregur allt að 258 km á rafmagninu eins og áður segir.

Þetta er mikil aukning á drægni á eVito en fyrir var sendibíllinn með um 120 km drægni á rafmagninu Akstursdrægnin rúmlega tvöfaldast því nú með þessari nýju útfærslu af eVito.

Fyrsta flokks þægindi

Maður finnur alveg aflið þegar tekið er af stað. Aksturseiginleikarnir eru hreint afbragðsgóðir og eiginlega ótrúlega góðir miðað við að maður er að keyra sendibíl. Bíllinn liggur mjög vel og er þéttur í alla staði.

Öll aðstaða í innanrýminu er fyrsta flokks. Sætin eru mjög þægileg og það fer vel um ökumann og farþega frammí. Innanrýmið er mjög fallega hannað og svolítið eins og maður sé staddur í lúxusjeppa frekar en sendibíl en Mercedes-Benz er auðvitað lúxusbílaframleiðandi sem og stærsti framleiðandi atvinnubíla í heiminum þannig að kannski kemur þetta ekki á óvart eftir allt saman.

Sendibíllinn er einstaklega fjölhæfur og með ríflegt innanrými. Hann er undir 2 metrum á hæð og smellpassar því inn í flesta bílskúra, bílastæðahús, bílakjallara og þvottastöðvar. Burðargeta sendibílsins er 764-842 kg.