Velkomin í heillandi heim Chianti sem þekkt er fyrir samnefnd rauðvín sem að grunni til eru gerð úr þrúgunni Sangiovese. Hérna er sandsteinn og galestro ásamt hörðum hvítum kalksteini sem kallast albarese, algeng blanda.
Þessi einstaka staðsetning er paradís á jörð fyrir Sangiovese en jarðvegurinn er mismunandi milli hinna 11 mismunandi svæða Chianti Classico flokkunarinnar. Sangiovese þrúgan er hjarta Chianti vínanna en þau eru oftast léttari á fæti heldur en t.d. Brunello di Montalcino vínin úr Toscana.
Í bókinni Vino segir Joe Bastianich frá því að sum bestu vín sem hann hafi smakkað á sínum ferli hafi verið Chianti og líka sum af þeim verstu. Fyrir þá sem kynntust Chianti í bastklæddum flöskum á síðustu öld getum við fullvissað viðkomandi um að nú er öldin önnur.
Einungis 13% af landvæðinu eru undir ræktun, allt umlukið skóglendi byggt villisvínum og dádýrum. Bestu húsin stunda lífræna ræktun sem tryggir til lengri tíma litið að vínviðurinn róti sig dýpra í gegnum fleiri jarðlög og verður þolnari fyrir þurrkatíð, semsagt gamaldags víngerð en með nútíma áherslum.

Sveitasæla, sæta og sýra
Fyrir þá sem vilja upplifa raunverulega sveitasælu er vel hægt að mæla með ferðalagi hingað og jafnvel hjólandi líka þar sem margir framleiðendur bjóða upp á heimsóknir.
Í hugum sumra er hið eina sanna Chianti Classico eingöngu gert úr Sangiovese, nokkuð sem er krefjandi ef markmiðið er að ná fram ljúffengri sætu samhliða sýrunni sem tryggir ferskleika. Sangiovese er talin miðla einna best einkennum hverrar upprunaekru. Aðkomuþrúgur eiga það til að gefa vínunum of mikinn alþjóðlegan blæ og hylja upprunaeiginleika vínanna.

Héraðinu er skipt í nokkur undirsvæði en annað sem skiptir máli er að samfara hlýnun njóta svalari ekrur sín betur í seinni tíð.
Svæðin sem heyra undir UGA flokkunarkerfið (Unita Geografiche Aggiuntive) eru 11. Það myndi líklega æra óstöðugan að leggja á lesendur að útskýra flokkunarkerfið á Ítalíu í heild. Þeim sem vilja kafa dýpra bendum við á að bókin Chianti Classico: The Atlas of the Vineyards and UG’s fæst í netverslun Sante.is. Við látum duga í þágu þessara umfjöllunar að vísa í þennan pýramída sem fylgir með umfjölluninni.
Nokkrir vel valdir ítalskir landsliðsmenn
Cigliano di Sopra í San Casciano er í Val di Pesa. Svæðið er það nyrsta en í þessum ævaforna árfarvegi eru ávalar steinvölur fyrirferðarmiklar. Víngerðin á hér rætur aftur til 14. aldar en er nú í höndum yngstu víngerðarmanna sem við höfum hitt. Að hluta til hefur miklum húsakosti verið breytt í ferðaþjónustu. Í garðinum eru ræktaðar yfir 100 yrki af sítrónum.
- 2021 Cigliano di Sopra Chianti Classico DOCG. 100% Sangiovese. Gerjunin fer fram í stáltönkum og vínið fær svo að liggja á frönskum eikartunnum.

Stærsta húsið okkar í Chianti er Principe Corsini 49 hektarar af vínvið og 70 hektarar af ólífuræktun. Húsið hefur verið í eigu sömu fjölskyldu síðan 1360 en sagan segir að fjölskyldan geti ferðast frá Flórens til Rómar án þess að víkja af sínu eigin landi. Það er mikið lagt í víngerðina en trúin á jarðveginn er aldrei langt undan.
- 2021 Principe Corsini Chianti Classico Le Corti DOCG. 95% Sangiovese og 5% Colorino. Þetta er aðalvín Principe Corsini. Vínviðurinn er í 220-300 metra hæð yfir sjávarmáli.
- 2021 Principe Corsini Chianti DOCG. 95% Sangiovese og 5% Colorino. Létt og fínlegt vín sem sýnir hið rétta andlit Sangiovese þrúgunnar, í flokki fyrir neðan Chianti Classico þar sem þrúgurnar eru aðkeyptar. Þetta er vín sem við köllum gott í inngangsflokki.
I Fabbri, stofnað 1620 í Lamole sem þekkt er fyrir ilmkennd og frekar ljós vín úr sendnum vínekrum í 550-650 metra hæð yfir sjávarmáli. Lamole er minnsta svæðið í Chianti Classico. Fyrstu vínflöskurnar voru framleiddar á búinu árið 1920. Hér örlar oft á kirsuberjum og hindberjum í bragði. Hér var eitt sinn varðturn til að verjast ásókn
nágrannanna frá Flórens.
Vínræktin í Lamole fer oft fram á manngerðum pöllum sem eru búnir til með hlöðnum veggjum því hlíðarnar eru afar brattar. Þessir pallar eru margra alda gamlir.
Vínin
- 2021 I Fabbri Chianti Classico DOCG. 100% Sangiovese. Vínviðurinn er í 550-650 metra hæð yfir sjávarmáli, létt og fágað vín sem fær aldrei að sjá eik.
- 2021 I Fabbri Chianti Classico Terra di Lamole DOCG. 90% Sangiovese og 10% Canaiolo.
Umfjöllun Arnars Sigurðssonar og Elíasar Blöndal Guðjónssonar um Chianti birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út á föstudaginn.