Þann 12. desember nk. opnar hönnunargalleríið HAKK dyrnar að Óðinsgötu 1 í Reykjavík. Á þessari fyrstu opnun HAKK stígur hönnunartríóið Erindrekar á stokk með fylgihluti úr æðardúni frá Skálanesi í Seyðisfirði.

Um er að ræða lúffur og húfur, úr fyrsta flokks vottuðum æðardúni og vatns- og vindheldri, lífrænni, bómull. Vörurnar eru handgerðar á Íslandi og seldar í takmörkuðu upplagi.

Brynhildur Pálsdóttir, eigandi HAKK, segir í samtali við Viðskiptablaðið að sýningin verði opin alla daga fram að jólum og tekur síðan önnur sýning við eftir áramót. Hugmyndin hafi þá verið að skapa vettvang fyrir bæði myndlist og hönnun.

„Okkur hefur fundist vanta einmitt svona vettvang fyrir þessa tegund af list. Það eru til alveg fullt af frábærum myndlistargalleríum en okkur hefur vantað stað til að kynna aðeins þetta sem kallast functional art.“

Með sýningu Erindreka er jafnframt verið að kynna verðmæti hráefnisins, sem Brynhildur telur Íslendinga geta verið duglegri að nota.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Stúdíó Erindrekar er íslenskt hönnunartríó með aðsetur í Reykjavík og á Seyðisfirði. Stofan er skipuð vöruhönnuðunum og æðarbændunum Írisi Indriðadóttur og Signýju Jónsdóttur, og fatahönnuðinum og textílsérfræðingnum Sigmundi Páli Freysteinssyni.

Erindrekar leggja áherslu á vistvæna hönnun og fylgja sjálfbærum vinnubrögðum í hverju smáatriði.