Steingrímur Sigurgeirsson
Steingrímur Sigurgeirsson

Steingrímur Sigurgeirsson hefur skrifað greinar um vín í 30 ár, fyrst í Morgunblaðið en síðan á vefsíðunni Vínótek, sem margir þekkja. Í vínumfjöllun Áramóta, tímarits Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, fer hann með lesendur í ferðalag um gamla heiminn, nánar tiltekið á Íberuskagann og til í Frakklands. Tekur hann fyrir þrenns konar rauðvín og áhugavert hvítvín frá Rias Baixas í Galisíu.

Roquette & Cazes Douro 2016
Nágrannar þeirra Spánverja í Portúgal eru ekki eins þekktir fyrir rauðvínin sín. Lengst af voru það fyrst og fremst portvínin sem að víngerðin byggði á til útflutnings og síðan auðvitað rósavínið Mateus upp úr miðri síðustu öld.  Í Douro-dalnum þar sem portvínin eru framleidd hefur hins vegar rauðvínsgerð úr sömu þrúgum og portvínin farið vaxandi og þetta geta verið magnað vín.

Vínið hér er, Roquette & Cazes, er samstarfsverkefni tveggja magnaðra vínfjölskyldna sem í gegnum árin hafa byggt upp nána vináttu í gegnum ást á vínum og taka höndum saman við gerð þessa víns. Annars vegar Roquette-fjölskyldunnar sem á og rekur Quinta do Crasto í Douro-dalnum í Portúgal og hins vegar Cazes-fjölskyldunnar sem á og rekur Chateu Lynch-Bages í Pauillac í Bordeaux. Vínið er gert úr þrúgum af ekrum Crasto í Douro og eru notaðar þrjár af helstu rauðvínsþrúgum Douro-dalsins, Touriga Nacional, Tinta Roriz (Tempranillo) og Touriga Franca. Stíll vínsins er hins vegar í anda stóru Bordeaux-vínanna með öflugum tannískum strúktúr og áherslu á það sem Frakkar kalla „terroir“ karakteruppruna eða eðli vínekrunnar sjálfrar og allt það sem gerir hana að því sem hún er, jarðvegur, loftslag og lega. Þetta er mjög dökkt og kröftugt vín sem má bera fram með bragðmiklum réttum. Mæli með að umhella því.

3.899 krónur.

E. Guigal Côte Rotie 2016
Feðgarnir Marcel og Philippe Guigal eru þeir sem allir horfa til þegar vínin frá Côte Rotie nyrst í Rhone eru annars vegar. Marcel Guigal tók við rekstrinum af föður sínum Etienne árið 1961 og gerði það að stórveldi í vínheiminum á nokkrum áratugum. Í leiðinni endurreisti hann vínsvæðið Côte Rotie sem var fallið í gleymsku á þessum árum og vínrækt komin niður í einungis 60 hektara. Marcel lagði ofuráherslu á einnar ekru vín og vínin hans La Landonne, La Mouline og La Turque (stundum kölluð „la la vínin“) eru nú með dýrustu og eftirsóttustu vínum Frakklands. Philippe sonur hans er nú að taka við stjórn fyrirtækisins.

Côte Rotie Brune et Blonde er „einfaldasta” Côte Rotie-vín þeirra feðga og kostar brot af verði la la-vínanna. Þetta er engu að síður magnað vín en Côte Rotie er einhver tignarlegasta birtingarmynd Syrah-þrúgunnar. Frábært villibráðarvín. Nafnið vísar til þess að þrúgurnar koma af ekrum úr báðum meginhlíðum svæðisins, Côte Brune og Côte Blonde.

8.998 krónur.

Cerro Anon Gran Reserva 2011
Það er eiginlega ekki hægt að taka saman svona lista án þess að vera með Spánverja á honum. Víngerðin á Spáni hefur verið á fleygiferð síðustu áratugina og vínin þaðan eru í fremstu röð þó að það endurspeglist sem betur fer ekki alltaf í verði. Vínin frá Rioja bjóða til dæmis oft upp á ótrúleg gæði miðað við verð. Ég ákvað að velja eitt af þeim vínum sem hafa nýlega verið að bætast við í búðunum og heillaði mig upp úr skónum,

Cerro Anon Gran Reserva 2011 sem er vín frá Bodegs Olarra. Þetta er tiltölulega ungt vínhús á spænskan mælikvarða (stofnað 1973) og hefur verið framarlega alla tíð. Þessi Gran Reserva, blanda úr Tempranillo, Mazuelo, Graciano og Garnacha, er að verða áratugargömul en það eru engin þreytumerki á henni, hún á mörg ár eftir. Þetta er “kjötvín”, fullkomið með góðri nautasteik en ekki síður lambi, önd og mildri villibráð.

3.550 krónur.

Pazo Barrantes 2018
Spænsku hvítvínin hafa fallið í skuggann af rauðvínunum í gegnum tíðina en ef eitthvað er hefur hvítvínsgerð verið í enn hraðari þróun á Spáni en sú rauða. Spánverjar eiga frábær svæði til hvítvínsræktunar og karaktermiklar og flottar þrúgur. Eitt af mínum uppáhaldshvítvínssvæðum allt frá því að ég smakkaði vín þaðan fyrst fyrir einhverjum þremur áratugum eru Albarino-vínin frá Rias Baixas í Galisíu.

Pazo Barrantes er í eigu Cebrián-Sagarriga fjölskyldunnar sem einnig á hið sögufræga vínhús Marques de Murrieta í Rioja. Rétt eins og Murrieta er með betri Rioja-vínum er Barrantes með betri Rias Baixaz vínum. Þetta er yndislegt Rias Baixas-vín sem er tilvalið með forréttum á borð við humar og rækjur.

3.491 króna.

Fjallað er um málið í Áramótum , tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem var að koma út. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af tímaritinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .