Elín Birna Hallgrímsóttir er 22 ára nemi í Rekstrarverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Síðasta eitt og hálfa árið hefur hún verið búsett í Bahrain með fjölskyldunni sinni þar sem hún hefur getað sett allan sinn fókus á crossfit, hennar helsta áhugamál.

Elín Birna sigraði Muscat Throwdown í Óman í fyrra.
Elín Birna sigraði Muscat Throwdown í Óman í fyrra.

Á þeim tíma hefur hún fengið mörg tækifæri til að ferðast um Mið-Austurlöndin og keppa í crossfit sem skilaði henni ófáum verðlaunapeningunum. Einnig varð Elín sjötta hæsta konan á Íslandi í fyrstu undankeppninni fyrir heimsleikana í crossfit í ár, Open. Hún segist mjög þakklát mömmu sinni sem hefur fylgt henni á öll mót.

Í dag er Elín flutt heim til Íslands til að klára BSc gráðuna sína og auðvitað halda áfram að bæta sig sem íþróttakonu. En hennar markmið eru að komast inn á ennþá stærri mót.

Sólsetur á ströndinni í Bahrain.
Sólsetur á ströndinni í Bahrain.

Hvar varstu búsett og hversu lengi bjóst þú þar?

Ég bjó í Bahrain í 1 og 1/2 ár.

Hver var ástæðan fyrir því að þú fluttir?

Ég flutti út vegna þess að stjúppabbi minn fékk vinnu úti og ég ákvað að fara með allri fjölskyldunni í stað þess að vera eftir heima.

Mig hefur alltaf langað til að prófa að búa annars staðar en á Íslandi og var þetta því fullkomið tækifæri fyrir það. Ég ákvað að þó svo ég yrði eftir á í námi þá væri ég að fara upplifa hluti sem ég væri aldrei að fara fá tækifræri til að gera aftur.

Elín æfði og þjálfaði í Crossfit Delmon.
Elín æfði og þjálfaði í Crossfit Delmon.

Varst þú fljót að aðlagast nýjum aðstæðum og lærðir þú tungumálið?

Ég myndi segja að ég hafi verið frekar fljót að aðlagast aðstæðum en auðvitað var það smá sjokk að flytja á stað sem ég hafði aldrei heyrt um og hefja nýtt líf. Ég var mjög heppin með Crossfit stöðina sem ég byrjaði að æfa í (Crossfit Delmon) þar sem ég kynntist yndislegasta fólki í heimi og var fljót að koma mér inn í Crossfit samfélagið í Bahrain.

Ég náði því miður ekki að læra tungumálið en lærði þó nokkur góð orð sem ég gat aðallega notað við að þjálfa. En arabíska er talið eitt erfiðasta tunugmál í heimi að læra.

Er mikill munur á menningunni úti og hér heima?

Elín segir íbúa Bahrain ekki jafn upptekna við eigið líf eins og Íslendingar.
Elín segir íbúa Bahrain ekki jafn upptekna við eigið líf eins og Íslendingar.

Ég myndi segja það sé mikill munur á menningunni úti og hér heima. Þar sem Bahrain er múslima ríki er almenna reglan að fólk klæðir sig frekar “modestly” þó svo að það sé engin regla sem bannar fólki að sýna hné og axlir. Bahrain er “linasta” ríkið af araba-ríkjunum í kring og því koma oft arabar frá öðrum löndum til Bahrain því þar má allskonar sem ekki má í öðrum ríkjum.

Fólk er almennt mjög trúað úti og biðja oft 5 sinnum á dag, það er eitthvað sem mér finnst svo fallegt að fólk gefi sér tíma til að sinna trúarbrögðum sínum af mikilli samvisku. Margir fara í mosku allavega einu sinni á dag, en það eru moskur á öðru hvoru götuhorni og vaknaði maður oft um fimmleytið við fyrsta bænakall. Fólk þarna er ótrúlega indælt og allir eru alltaf tilbúnir til þess að hjálpa. Ég hef kynnst besta og indælasta fólki í heimi þarna úti. Mér finnst það öðruvísi en á Íslandi þar sem margir eru svo uppteknir við sitt eigið líf.

Hvernig var venjulegur dagur í þínu lífi úti?

Seinsta árið hef ég verið að þjálfa og æfa crossfit úti. Líf mitt hefur því bara snúist í kringum crossfit. Ég byrjaði morguninn á því að taka fyrstu æfingu dagsins oft með þjálfaranum mínum. Hvíli svo í eitthvern tíma áður en ég fer á seinni æfingu dagsins. Eftir æfingarnar mínar fór ég svo að þjálfa kvenna tímana í Crossfit Muharraq.

Dagarnir hjá Elínu í Bahrain snérust nær engöngu um crossfit.
Dagarnir hjá Elínu í Bahrain snérust nær engöngu um crossfit.

Crossfit úti er iðulega skipt niður í Mix tíma og kvenna tíma (ladies only) þar sem margar konur vilja ekki æfa í kringum karlmenn. Þar sem ekki svo margar konur stunda Crossfit af einhverri alvöru er mikil vöntun á kvennmanns þjálfurum og eru flestir kvennmanns þjálfararnir frá öðrum löndum en Bahrain. Eftir þjálfun fór ég svo heim borða kvöldmat og beint að sofa og svo bara repeat.

Elínu dreymir um að flytja aftur til Mið-Austurlanda.
Elínu dreymir um að flytja aftur til Mið-Austurlanda.

Sérðu fyrir þér að flytja aftur út?

Ég sé klárlega fyrir mér að flytja aftur út. Þegar ég hef lokið náminu mínu langar mig ekkert meira en að flytja til Mið-Austurlanda aftur þó að það verði ekki endilega Bahrain. Þótt ég væri helst til í að flytja til Bahrain þá væri mjög gaman að prófa búa annars staðar í kring.

Eitthvað að lokum?

Ég mæli svo mikið með fyrir alla sem hafa tækifæri til, að prófa að búa í útlöndum. Ég hef fengið svo allt aðra sýn á heiminn og þroskast mikið við það. Einnig hef ég kynnst fólki sem ég hefði annars aldrei kynnst. Auk þess sem ég kynntist alveg nýjum menningarheim sem ég vissi mjög lítið um eða hafði ranghugmyndir um.