Bíllinn er mjög aflmikill og aðeins 3,8 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Ég ímyndaði mér að mér hefði liðið eins og Nicholas Cage í kvikmyndinni Gone in 60 Seconds. Hann ók reyndar Ford Mustang með látum og eyddi klárlega miklu bensíni við hraðaksturinn miðað við rafdrifinn Seal sem er öllu hljóðlátari og umhverfismildari.

Seal hverfur manni líka sjónum á aðeins 3,8 sekúndum sem tekur hann að fara úr kyrrstöðu í hundraðið. Hann er því með aflmestu götubílum á markaðnum í dag.

Eins og orrustuþota

Það var galið gaman að gefa í og Seal þýtur áfram eins og orrustuþota. Maður fær adrenalínkikk þegar tekið er af stað. Ég tek það fram að hraðasti aksturinn var samt löglegur á bæverskum hraðbrautum sem leyfa víða mikinn hraða.

82,5 kW rafhlaðan í Seal skilar bílnum 310 hestöflum og togið er alls 670 Nm. Hámarkshraði bílsins er 180 km/klst. Það er ekki bara hröðunin og aflið sem fær mann til að hrífast heldur aksturseiginleikarnir heilt yfir hvort sem ekið er hratt eða rólega.

Bíllinn er mjög stöðugur og liggur vel jafnvel þótt greitt sé ekið í beygjum. Stýringin er afbragðsgóð. Aksturinn er hljóðlátur en bíllinn er svo þéttur að það heyrist nánast ekkert veghljóð inn í hann.

Seal sem reynsluekið var í Bæjaralandi er í Excellence útfærslu og er fjórhjóladrifinn. Drægnin er allt að 520 km sem er mjög gott. Seal er einnig í boði með afturhjóladrifi og drífur þá allt að 570 km.

Nánar er fjallað um BYD Seal í fylgiritinu Bílar sem fylgdi nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins í morgun.