Franska knattspyrnufélagið Paris Saint-Germain (PSG) skoðar nú að yfirgefa Parc des Princes, sem hefur verið heimavöllur liðsins frá árinu 1974. Þá er þjóðarsjóður Katar með til skoðunar að selja hluta í PSG. Bloomberg greinir frá.

„París á skilið betri völl,“ sagði Nasser Al-Khelaifi, forseti PSG, í viðtali í Doha, þar sem HM í fótbolta fer nú fram.

Al-Khelaifi segir að eigandi PSG, Qatar Sports Investments sem er í eigu þjóðarsjóðs Katar, væri að skoða að selja hlut í knattspyrnuliðnu. Eigendur PSG fylgja þar með í fótspor Manchester United og Liverpool sem hafa nýlega tilkynnt um sambærileg áform.

Parc des Princes völlurinn tekur aðeins um 48 þúsund áhorfendur. Al-Khelaifi sagði að knattspyrnufélagið hafi átt í viðræðum við borgarstjórn Parísar undanfarin 4-5 ár um að stækka og bæta leikvöllinn en að þær hafi borið lítinn árangur.

„Minn fyrsti valkostur er að flytja ekki. En Parísarborg hefur þrýst á okkur að flytja.“ Hann bætti við að PSG hefði þrjá aðra valkosti en gaf ekki upp nánari upplýsingar.

Samkvæmt heimildarmönnum Bloomberg er einn þessara valkosta að kaupa Stade de France, heimavöll landsliðs Frakka sem tekur 80 þúsund áhorfendur, af franska ríkissjóðinum.

Frá úrslitaleik Meistaradeildarinnar á Stade de France í vor þegar Real Madrid hafði betur gegn Liverpool.
© epa (epa)

„Við höfum varið 70 milljónum evra í að bæta Parc des Princes en hann er ekki völlurinn okkar,“ sagði Al-Khelaifi. Eigandinn, Parísarborg, hafi viljað of mikinn pening fyrir leikvanginn.

PSG tilkynnti fyrr í ár að miðar hefðu selst upp á hundrað heimaleiki í röð. Al-Khelaifi sagði að fyrirhuguð stækkun heimavallar PSG væri ekki síst liður í að uppfylla reglur UEFA sem takmarka útgjöld umfram tekjur félaga. PSG var sektað fyrr í ár um 10 milljónir evra, eða um 1,5 milljaðra króna, fyrir að brjóta fjárhagsháttvísisreglur UEFA.

Áætlað er að tekjur PSG á yfirstandandi tímabili verði um 700 milljónir evra, eða um hundrað milljarðar króna. Tekjur frönsku meistararanna eru nú sambærilegar tekjum annarra stórliða í Evrópu. Tekjur Manchester City á síðasta leiktímabili námu 613 milljónum punda sem var nýtt met hjá Englandsmeisturunum.

Nasser Al-Khelaifi, forseti PSG
© epa (epa)