Jaguar Land Rover vígði formlega fyrir fáeinum dögum nýja prófanamiðstöð fyrir rafbíla í Whitley í Coventry í Bretlandi sem ætlað er að auka afköst í framleiðslu rafbíla fyrirtækisins og orkuskiptum. BBC greinir frá.

Fyrirtækið hefur sett sér það markmið að árið 2030 verði allar nýjar bifreiðar framleiðandans eingöngu rafknúnar. Þar á meðal eru næstu kynslóðir Range Rover, Defender, Discovery og Jaguar.

Nýja miðstöðin, sem er rúmir 30 þúsund fermetrar að stærð og kostaði um 250 milljónir punda eða rúma 43 milljarða króna, hýsir nýjan hátæknibúnað þar sem gerðar eru fjölmargar mismunandi prófanir á rafbílum við mismunandi aðstæður, þar á meðal í lofthita frá -40°C og upp í 55°C.

Fjárfestingin hefur gert fyrirtækinu kleift að draga verulega úr prófunum bílgerða sinna hjá prófunarstöðvum í öðrum löndum og fara þær nú að mestu leyti fram í nýju stöðinni í Coventry. Jafnframt gera hin auknu afköst, sem nýja miðstöðin býður upp, mögulegt að auka á næstu árum úrval bílgerða í framleiðslu Jaguar Land Rover.

Fyrir utan hagræði af prófunum á einum stað leiðir nýja aðstaðan einnig til sparnaðar í útgjöldum og samdrætti í kolefnislosun sem fylgir því að senda bíla í prófanir erlendis. Nýja prófanamiðstöðin hefur einnig skapað 350 ný störf í Coventry, þar af 150 fyrir rafbílaverkfræðinga sem er veruleg innspýting fyrir atvinnulífið í héraðinu.