Steinarr Lár Steinarsson, stofnandi KúKú Campers og annar eiganda Go Campers, og Guðrún Magnúsdóttir, eiginkona hans, hafa fest kaup á einbýlishúsi við Starhaga í Vesturbæ Reykjavíkur. Kaupverðið nemur 250 milljónum króna samkvæmt þinglýstum kaupsamningi sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

Eignin er alls 316 fermetrar, þar af er 27,5 fermetra bílskúr, og var fyrst auglýst til sölu í mars. Húsið, sem byggt var 1954 og hannað af Halldóri Jónssyni, vakti strax athygli en margir vildu að nýir eigendur myndu ekki hrófla við innréttingunum.

Kjallarinn vakti sérstaka athygli, líkt og mbl.is greindi frá, en innanhúss- og húsgagnahönnuðurinn Sveinn Kjarval hannaði arinstofu sem er þar að finna. Myndir af eigninni má finna hér.

Í kaupsamningi kemur fram að kaupendur hafi óskað eftir því að halda arinstofunni óbreyttri og að húsgögn, ljós og gluggatjöld fylgi kaupunum. Þá óskuðu þau eftir því að innréttingar og sófi í bókaherbergi á aðalhæð hússins fylgi. Áhugasamir virðast því ekki þurfa að hafa áhyggjur.

Í sumar greindi Vísir frá því að Steinarr Lár og Guðrún höfðu sett einbýlishús sitt við Kópavogsbraut á sölu. Eignin er alls 295 fermetrar, þar af 43,5 fermetra bílskúr, en húsið stendur á sextán hundruð fermetra lóð. Ásett verð samkvæmt Vísi var 245 milljónir króna en eignin var tekin úr sölu í byrjun september, samkvæmt upplýsingum á fasteignavefnum Fastinn.