Enginn flugvöllur í heiminum sendir jafn margar þotur til Kaupmannahafnar og Keflavíkurflugvöllur en í ágúst voru flugferðirnar þangað rúmlega sex á dag. Þetta kemur fram á vef Túrista.

Næst oftast var flogið til London þar sem umferðin skiptist á milli fjögurra flugvalla, Heathrow, Gatwick, Luton og Stansted.

Þegar horft er til vesturs er Íslandsflugið mest frá New York en á því svæði eru flugvellirnir þrír, New York JFK, Stewart og Newark í New Jersey-fylki. Í Boston er hins vegar bara einn flugvöllur og er hún þá tæknilega séð helsta samgöngumiðstöðin fyrir Íslandsferðir í Bandaríkjunum.

Í tilkynningu frá Icelandair fyrr í sumar kom fram að sætanýting hafi alls verið 86% í júní á þessu ári, en í flugi til og frá Norður-Ameríku hafi sætanýting verið 90%.

Fraktflutningar jukust einnig um 51% á milli ára, aðallega vegna aukningar í fraktflugi yfir Norður-Atlantshafið með tilkomu tveggja Boeing-767 breiðþota í fraktflota félagsins.