Kvikmyndin Leynilöggan hefur slegið met yfir tekjuhæstu frumsýningu á íslenskri mynd. Tekjur af miðasölu á Leynilögguna námu 15,9 milljónum króna um liðna helgi og alls hafa selst miðar fyrir 23,7 milljónir frá frumsýningu á miðvikudaginn síðasta.

Leynilöggan slær þar með fimmtán ára gamalt met Mýrarinnar sem var frumsýnd árið 2006 en þar fengust 15,8 milljónir króna í miðasölu yfir fyrstu helgi sýninga. Algjör Sveppi og Gói, Bjarnferðarson og Eiðurinn fylgja á eftir í þriðja til fimmta sæti á listanum en miðasala á frumsýningarhelgi þeirra voru á bilinu 12,6-13,4 milljónum króna.

„Þetta er svo sannarlega einstakur árangur og ljóst að myndin mun gera harða atlögu að fleiri metum á næstu vikum,“ segir í fréttatilkynningu.

Leynilöggan fjallar um leynilögguna Bússa sem leikinn er af Auðunni Blöndal. Hannes Þór Halldórsson, fyrrum landsliðsmarkvörður, er leikstjóri myndarinnar en hann skrifaði handritið ásamt Nínu Petersen og Sverri Þór Sverrissyni. Söguna skrifuðu Auðunn, Hannes Þór og Egill Einarsson.