Lífræni dagurinn verður haldinn í annað sinn næstkomandi laugardag milli 13-17 en það eru Lífrænt Ísland og VOR (félag um lífræna framleiðslu) sem standa fyrir deginum í ár, líkt og í fyrra.

Viðburður verður haldinn á höfuðborgarsvæðinu á Kaffi Flóru í Grasagarðinum en fjögur býli víðs vegar um landið munu á sama tíma opna sín býli fyrir gestum og gangandi.

Þeir bæir sem munu opna býli sín í ár utan höfuðborgarsvæðisins eru Akur organic við Flögu á Þorlákshöfn, Móðir Jörð við Vallanes á Egilsstöðum, Sólbakki garðyrkjustöð við Ós í Hörgársveit og Syðra-Holt í Svarfaðardal.

Á þessum fjórum lífrænu býlum munu gestir geta séð, smakkað og heyrt hvað lífrænir bændur eru að vinna við. Í tilkynningu segir jafnframt að uppákomur verða yfir daginn og leikir verða fyrir börnin.

Kaffi Flóra mun einnig bjóða upp á rétti byggða nær alfarið á lífrænum íslenskum hráefnum.