Range Rover kom fyrst á markað árið 1970. Jeppinn er löngu orðinn sígildur og einhvern veginn tekst þeim í Whitley alltaf að bæta fyrri útgáfu bílsins. Það er lítið komið af nýja bílnum á götur Reykjavíkur en við fengum SE útgáfuna með díselvél til afnota í nokkra daga.
Nýi Range-inn er sportlegri en eldri gerð. Mesta breytingin er á afturenda bílsins. Hann er alveg sérstaklega stílhreinn og fallegur. Ljósin lítið áberandi en ramma inn afturhlerann og númeraplötuna.
Hliðar bílsins eru bogadregnar og handföngin til að opna bílinn hverfa inn í hurðir hans þegar ekki þarf á þeim að halda. Framendinn er sportlegri en forverinn – líkt og allur bíllinn. Grillið er eilítið minna og stuðarinn stílhreinni.

Engu til sparað
Þegar komið er inn í bílinn sést að ekkert er til sparað. Frágangur á sætum og innréttingu er eins og allt verður best á kosið. Það er ekkert sem kemur á óvart í stjórnbúnaði og þeir sem hafa átt Range Rover eru á heimavelli. Við höfum ekið öllum kynslóðum Range Rover og þrátt fyrir að nokkuð sé liðið frá því síðast, þá venst stjórnbúnaðurinn á fyrstu kílómetrum akstursins.
Stærsta breytingin í mælaborðinu er skjárinn sem staðsettur er milli ökumanns og farþega. Hann er 13 tommur að stærð og smellpassar í bílinn. Þar er hægt að stýra öllu því sem máli skiptir svo sem miðstöð, hita í sætum og svo framvegis. Það er líka hægt að gera það á gamla mátann með tökkunum, hvort sem er í stokknum milli framsæta eða í stýrinu. Á stýrinu er einmitt að finna takka sem margir þakka fyrir á köldum vetrarmorgni. Takkanum til að hita upp stýrið.
Skjárinn virkar stórvel, ekkert hik og einfalt er að tengja símann. Allt viðmótið er gott, hvort sem það er í lagavali eða leiðsögukerfinu.
Akstureiginleikar
Það er einstaklega þægilegt að keyra Range Rover. Útsýnið er stórgott og aksturinn áreynslulaus með öllu. Það er ekki að ástæðulausu sem Range-inn er kallaður konungur jeppanna.
Maður finnur fyrir mestu breytingunni frá eldri gerð í bæjarsnattinu. Bíllinn beygir á öllum hjólum sem gerir það að verkum að auðvelt er að snúa honum á alla kanta. Snúningshringurinn er aðeins um 10 metrar, sem er svipað og á minni gerðinni af fólksbíl.
Umfjöllunin birtist í sérblaðinu Bílar, sem kom út fimmtudaginn 16. mars 2023. Áskrifendur geta lesið hana í heild hér.