Performance er eins og nafnið gefur til kynna kraftmesta útgáfan af Model 3 bíl Teslu. Tesla Model 3 Performance kom fyrst á markað árið 2018. Nýjasta kynslóð Performance-rafmótorsins skilar yfir 460 hestöflum og fer úr 0 í 100 km/klst. á aðeins 3,1 sekúndu. Hámarkshraðinn er gefinn upp á 262 km/klst. sem er aðeins meira en íslenskir sportbílaáhugamenn geta leyft sér hér á landi, enda auglýsir Tesla að Performance-bíllinn eigi jafnt heima á vegum sem og á kappakstursbraut.
Performance er eins og nafnið gefur til kynna kraftmesta útgáfan af Model 3 bíl Teslu. Tesla Model 3 Performance kom fyrst á markað árið 2018. Nýjasta kynslóð Performance-rafmótorsins skilar yfir 460 hestöflum og fer úr 0 í 100 km/klst. á aðeins 3,1 sekúndu. Hámarkshraðinn er gefinn upp á 262 km/klst. sem er aðeins meira en íslenskir sportbílaáhugamenn geta leyft sér hér á landi, enda auglýsir Tesla að Performance-bíllinn eigi jafnt heima á vegum sem og á kappakstursbraut.
Miklar breytingar á undirvagni
Miklar uppfærslur hafa verið gerðar á Model 3 Performance frá fyrri gerð. Má þar nefna uppfærslur á vélbúnaði undirvagns sem eykur afköst drifkerfis og fjöðrunar. Þá er meiri stífni í burðarvirki, gormar og jafnvægisstangir sem og fóðringar sem gera það að verkum að undirvagninn býður upp á meiri afköst og aukið viðbragð.
Nýjar 20” álfelgur og performance-sumardekk skila auknu afli á vegina og þá tryggja felgurnar skarpara viðbragð og aukið grip út úr beygjum, bæði á hefðbundnum vegum og kappakstursbrautum, að sögn Teslu. Þyngdarpunkturinn er líka mjög lágur sem eykur sportlega eiginleika bílsins. Sérstakar Performance bremsur fylgja nú sem staðalbúnaður. Þær eiga að tryggja skjótari hraðaminnkun þar sem þær hafa aukið hitaþol og aukna endingu. Rauðar bremsudælur prýða Model 3 Performance útgáfuna.
Tesla Model 3 Performance er með sjálfvirka aðlögunarhæfa fjöðrunartækni sem stjórnað er af innbyggðum hugbúnaði Tesla og samþættum VDC-stjórnbúnaði (Vehicle Dynamics Controller). Að sögn Teslu tryggir þetta kerfi óviðjafnanlega stjórn án þess að það komi niður á hversdagslegu notagildi.
Leynir á sér
Að utan er Performance ekki mikið breyttur frá Model 3. Ytra byrði að framan og aftan eru þó meira afgerandi í útliti, straumlínulagaðri og búnir innfelldum kæliopum sem vinna með dreifara að aftan og vindskeið úr koltrefjum til að hámarka lyftujafnvægi og stöðugleika á miklum hraða. Að innan eru ný sportsæti með endurbættum hliðarpúða og hliðarbólstrun sem veita meiri hliðarstuðning í beygjum og átakaakstri. Þau eru þrengri en í Model 3 en ótrúlega þægileg og leyna svo sannarlega á sér. Þau eru einnig með hita og loftræstingu. Á sætunum er einnig merki Performance sem er einnig hægra megin aftan á bílnum.
Annars er allt einfalt og stílhreint í Tesla Model 3 Performance. Koltrefjar eru í innréttingunni, 17 hátalarar. 15,4” snertiskjár er fyrir miðju frammí og þá er einn 8” snerti-skjár með stjórntækjum fyrir hita- og loftstýringu, Bluetooth-tengingu og afþreyingu afturí.
Stefnuljósavandamálið
Þegar ég segi að frammistaðan hjá Teslu sé næstum fullkomin þá er eitt stórt atriði sem verður að setja út á, en það er sú ákvörðun Teslu að sleppa stefnuljósaarminum. Þess í stað eru takkar inni í stýrishjólinu fyrir stefnuljósin. Í raun stór furðuleg ákvörðun en kannski virkar það í öðrum löndum en hér, með öll hringtorgin á höfuðborgarsvæðinu, þá er óhætt að segja að ég lenti í ótal mörgum atvikum þar sem ómögulegt var að gefa stefnuljós þegar keyrt var út úr hringtorgi.
Ólíkt mörgum rafbílum þá virðist alltaf vera nóg eftir af rafhlöðunni hjá Teslu. Drægnin er gefin upp 528 km en huga verður að að rafhlaðan tæmist hraðar eftir því sem hraðar er ekið. Verð fyrir Tesla Model 3 Performance er gefið upp 8.167.502 kr sem verður að teljast gott verð fyrir svona aflmikinn bíl. Hægt er að sækja um 900.000 kr. styrk hjá Orkusjóði við kaup á bílnum.