Japanar standa framarlega á flestum sviðum. Matargerðin og menningin er þekkt um heima allan og nýtur hvarvetna vinsælda. Þar er ekki einungis um að ræða sushi. Wagyu þykir heimsins besta nautakjöt og ekki að ástæðulausu: Nautin eru alin á japönskum bjór.

Bjór er vinsælasti áfengi drykkurinn í Japan, umtalsvert vinsælli en hrísgrjónavínið sake. Japanskur bjór þykir sérlega léttur í bragði og áferðin er það sem kallað er á bjórmáli ,,brakandi“. Það er þess vegna engin tilviljun að japanskur bjór nýtur sívaxandi vinsælda á vesturhveli jarðar. Japanskir bjórrisar eins og Asahi, Kirin og Sapporo eru nú orðnir góðkunningjar bjóráhugamanna hér vestanhafs.

En hvað er það sem gerir japanska bjórinn svona stökkan? Í tilviki Asahi og Sapporo þá gæti það verið sú staðreynd að hrísgrjón eru notuð við lögun hans samhliða byggmalti. Hrísgrjónin gera hann þurran og þannig stökkan.

Kirin Ichiban hins vegar er einungis lagaður úr möltuðu byggi en það sem gerir hann sérstakan er að hann er fyrstu pressu bjór. Fyrsta pressan í bjórgerðinni er hrein og tær og því má hvað þetta varðar líkja löguninni við gerð jómfrúarolíu. Hann er meira í ætt við hefðbundna lagerbjóra en Asashi og Sapporo en á sama tíma er hann mýkri.

Hinn þurri eiginleiki japansks bjórs er það sem gerir hann afar hentugan sem drykk með mat, til dæmis með sushi, en líka með feitum réttum eins og
hamborgara og frönskum.

Hugtakaskortur veldur því að það er erfitt að lýsa japanska bjórnum fullkomlega í einu orði en kannski segja mætti að hann sé nákvæmur – eins og Japanarnir eru sjálfir. Hann er léttur, auðdrekkanlegur með afar lítilli beiskju.

Einungis einn japanskur bjór er fáanlegur í einokunarverslunum ríkisins en það er Asahi og kostar 399 kr. En fyrir þá sem vilja fara betur með launin sín, fæst sami bjór í frelsisverslun Sante.is á 375 kr.

Sante selur svo líka Kirin Ichiban sem kostar 310 kr. og fær því hæstu einkunn Viðskiptablaðsins fyrir verðgildi.

Hvernig á að panta bjór á japönsku?

Biru er bjór á japönsku. Þegar gengið er inn á veitingastað er gestum heilsað með ávarpinu „irrashaimasse” sem þýðir „vertu velkomin/n á veitingastaðinn minn” „Nama biru” þýðir kranabjór.

Ef þú vilt panta bjór á japönsku þá getur þú sagt:

  • Nama biru kudasai (Kranabjór, takk fyrir)
  • Biru ippai kudasai eða Biru hitotsu kudasai (Einn bjór, takk fyrir)
  • Biru nihai kudasai EÐA biru futatsu kudasai (Tvo bjóra, takk fyrir)
  • Biru sanbai kudasai EÐA Biru mitsu kudasai (Þrjá bjóra, takk fyrir)
  • Asahi kudasai (Asahi, takk)
  • Kirin kudasai (Kirin, takk)
  • Sapporo kudasai (Sapporo, takk)

Greinin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út á fimmtudaginn, 27. apríl 2023.