Listagjörningur Kolbeins Huga listamanns verður frumsýndur þann 22. júlí en gjörningur hans er hluti af gjörningaseríunni Leifar, sem fer fram yfir sumartímann í Marshallhúsi Nýlistasafnsins.

Gjörningaserían opnaði 24. júní og mun standa yfir til 6. ágúst og munu sex listamenn fremja gjörninga meðfram sýningu á heimildum og skjölum úr Gjörningaarkífi Nýlistasafnsins.

Titillinn Leifar vísar til kenningar Jaan Vansiner um sameiginlega merkingarsköpun, sem gefur til kynna að menning sé sameiginlega búin til úr þeirri merkingu sem við gefum upplifun okkar. Vísar þetta til líkamlegra hluta og atburða sem eiga sér stað í kringum okkur og er kenning hans er áminning um hvernig við sem hópur höfum aðgang að valdi og verkfærum til að búa til sameiginlegar minningar og menningu.

Í tilkynningu frá Nýlistasafninu segir að þau áþreifanlegu efni og hlutir sem falla til við gjörningana verða skildir eftir í sýningarsalnum til að þjóna sem efniviður fyrir þá listamenn sem á eftir koma.

Verkin verða ýmist skrásett með hljóðupptöku, í gegnum skapandi skrif og fangaðir á vídeó eða myndir. Efnið verður svo varðveitt í Gjörningaarkífi Nýló, en skjalasafnið verður aðgengilegt í sýningarsalnum yfir sumartímann.

Listamennirnir sem taka þátt eru Kamile Pikelyte, Wiola Ujazdowska, Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir, Kolbeinn Hugi, Unnur Andrea Einarsdóttir, Clare Aimée. Listamennirnir munu fara fram á völdum dagsetningum yfir sex vikna tímabil og skilja eftir sig líkamlega þætti sem verða að lokum að heimildum.