Það var mikið um að vera í Nekkehal sýningarhöllinni í Mechelen í Belgíu nýverið en þangað var bílablaðamanni Viðskiptablaðsins boðið til að skoða nýjustu Toyota og Lexus bílana sem frumsýndir voru. Bílablaðamenn víðs vegar að úr heiminum voru þar samankomnir til að skoða herlegheitin.
Nýr Aygo X Hybrid var meðal bíla sem kynntir voru til leiks á sýningunni. Aðalbreytingin er sú að nú er Aygo X með tvinnkerfi i fyrsta sinn. Ýmsar endurbætur hafa verið gerðar á núverandi kynslóð. Þetta er samt ekki nýr Aygo X frá grunni heldur meira svokallað „facelift“ en með nýrri aflrás. Minni háttar útlitbreytingar eru einnig í bílnum.
Toyota hefur náð mjög lágri koltvísýringslosun í útblæstri eða 86 g/km í þessari nýju útfærslu. Toyota segir að nýi smábíllinn Aygo X, sem er eins og áður segir 100% tvinnbíll, sé hreinasti bíll Evrópu sem þarf ekki að vera tengdur við rafmagn.
Almennt lágt kolefnisfótspor er af framleiðslu bílsins. Bíllinn er hannaður og framleiddur í Evrópu. Sama vél er í Aygo X Hybrid og í Yaris og Yaris Cross en þessi vél skilar 115 hestöflum. Aygo X var áður með 3 strokka 1,0 lítra bensínvél. Bíllinn kom fyrst á markað árið 2021. Nýr Toyota Aygo X verður eini smábíllinn sem er 100% tvinnbíll í Evrópu þegar hann kemur í sölu á næsta ári.
Með endurbættum Aygo X mun Toyota einnig bjóða upp á GR Sport útgáfu í fyrsta skipti.
Nánar er fjallað um málið í sérblaði Viðskiptablaðsins, Bílar. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.