Orkan hefur nú opnað hraðari hraðhleðslustöðvar á Birkimel og Vesturlandsvegi. Á stöðvunum eru sex hleðslustaurar, fimm með öflugum CCS tengjum og einn með bæði CCS tengi og CHAdeMO tengi, og geta því sex bílar fengið hleðslu á sama tíma.
Hleðslustöðin á Birkimel er 600kW og 400kW á Vesturlandsvegi með rafmagni frá Orkusalanum Straumlind sem notar eigin hugbúnað, gervigreind og sjálfvirkni til að tryggja viðskiptavinum sínum hagstæðasta verð á rafmagni á Íslandi. Á Orkustöðvunum er hægt að greiða fyrir hleðslu með Orkulykli, greiðslukorti og snertilausum greiðslum en ekki er þörf á sérstöku snjallforriti.
Orkan rekur 72 Orkustöðvar um allt land og stefnir á að fjölga hratt hraðhleðslustöðvum á næstu misserum. Næsta hraðhleðslustöð verður opnuð á Orkunni Laugavegi, við Brauð og co., á allra næstu dögum.
„Orkuskipti í samgöngum eru risastórt verkefni og með þessu erum við að taka okkar fyrsta skref í þeirri vegferð. Okkur fannst mikilvægt að koma inn á orkumarkaðinn með krafti og þess vegna urðu hraðhleðslur fyrir valinu á okkar stöðvum. Markmið Orkunnar er ávallt að einfalda líf viðskiptavina á ferðinni og hlökkum við til að sjá hvernig tekið verður í þessa nýjung hjá okkur,“ segir Auður Daníelsdóttir, forstjóri Orkunnar.
