Polestar rafbílaframleiðandinn hefur staðfest áform um að setja rafknúna Polestar roadster hugmyndabílinn í framleiðslu. Gert er ráð fyrir að framleiðslubíllinn komi á markað árið 2026 sem Polestar 6 rafknúinn roadster. Viðskiptavinir á öllum Polestar-mörkuðum geta frá og með deginum í dag pantað framleiðslupláss á netinu.

„Sökum sterkra viðbragða neytenda og fjölmiðla tókum við þá ákvörðun að setja þennan geggjaða roadster í framleiðslu og ég er einstaklega spenntur að láta það verða að veruleika,“ segir Thomas Ingenlath, forstjóri Polestar, í tilkynningu. „Polestar 6 er fullkomin blanda af kraftmiklu rafknúnu afli og ánægjunni af fersku lofti með toppinn niður.“

Rafknúni roadster hugmyndabíllinn, sem var opinberaður í Los Angeles í mars sem Polestar O₂, byggir á hönnun, tækni og sjálfbærni sem sett var fram með Polestar Precept og sýnir framtíðarsýn vörumerkisins fyrir sportbíla í framtíðinni.

Harðþaksblæjubíllinn verður byggður á sérhönnuðum Polestar álundirvagni. Hann er hannaður af Polestar og mun státa af 800 volta háspennukerfi sem þegar hefur verið staðfest að komi í Polestar 5. Þetta felur í sér allt að 650 kW (884 hö) af afli og 900 Nm tog frá aflrás með tvöföldum mótor, áætlaða hröðun frá 0-100 km/klst 3,2 sekúndur og 250 km/klst hámarkshraða.

Af þessu tilefni er fyrirhugað að framleiða 500 númeruð eintök af sérstakri „LA Concept“ útgáfu, „Polestar 6 LA Concept edition“. Blái kynningarliturinn „Sky“, ljósa leðurinnréttingin og 21 tommu felgur af Polestar O₂ hugmyndabílnum verður eingöngu í boði fyrir sérútgáfuna.

Staðfestingin á framleiðslunni er á sama tíma og rafknúni roadster hugmyndabíllinn verður sýndur á bílaviðburðunum Pebble Beach Concours d'Elegance og 'The Quail, A Motorsports Gathering' á Monterey Car Week í Kaliforníu, 18.-21. ágúst 2022.

Frekari tæknilegar upplýsingar og staðfestingar á búnaði verða gefnar út þegar framleiðslubíllinn verður að veruleika og þegar nær dregur frumsýningu árið 2026.