#3 er annar rafbíllinn sem kemur frá Smart, en fyrirtækið er nú í eigu Mercedes Benz og kínverska fyrirtækisins Geely og eru rafbílarnir framleiddir í Kína.
#3 er annar rafbíllinn sem kemur frá Smart, en fyrirtækið er nú í eigu Mercedes Benz og kínverska fyrirtækisins Geely og eru rafbílarnir framleiddir í Kína.
Arfleifð fyrirtækisins er enn haldið á lofti og nú í ár eru 25 ár síðan fyrsti Smart-bíllinn kom á markað. Sérstök 25 ára afmælisútgáfa var gerð af Smart #3 og var þeim bíl reynsluekið nú á dögunum.
Lengri en ásinn
Smart #3 er lengri og stærri en Smart 1 en ásinn er með meiri veghæð en þristurinn. Hann er samt byggður á sama undirvagni og Smart 1. Smart #3 kemur í nokkrum útfærslum, 25 ára afmælisútgáfan eða Anniversary Edition eins og hann heitir, auk Pulse og Brabus. Anniversary Edition er afturhjóladrifinn en hinar útgáfurnar eru fjórhjóladrifnar. Hann er vel útbúinn, en auk staðalbúnaðar sem er í Smart #3 Pulse er hann með Galaxy glerþaki, 19” Magneto álfelgum og Beats 640W 13 hátalara hljóðkerfi. Þá er hann með afmælis útlitspakka, en í honum eru sérmerkingar á bílnum og innanrýmið með sérstökum sætum auk rauðlitaðra öryggisbelta.
Flott hannað innanrými
Mælaborð og stjórntæki eru vel hönnuð. Ökumannsskjárinn er 9,2” LCD skjá og auk hans er 10” upplýsingavörpun á framrúðu staðalbúnaður í Smart #3. Bæði góðir skjáir og birtist einnig aðvörun um aðkomandi bíla í vörpuninni á framrúðu. 12,8” margmiðlunarskjár er fyrir miðju og er hann viðbragðsgóður og einfaldur í notkun, t.d. ef taka á út aðvörun fyrir hámarkshraða úr sambandi en það þarf að gera í hvert sinn er bíllinn er ræstur. Viðvörunarhljóðin eru frekar hvimleið í Smart en kannski eiga þau líka að vera það öryggisins vegna.
Smart #3 er búinn Android Auto og Apple CarPlay sem gerir ökumönnum kleift að færa snjallsímaeiginleika og -forrit á skjá upplýsinga- og afþreyingarkerfisins.
Hönnunin á innanrýminu er lík og í Smart 1. Miðjustökkurinn er samt óþarflega stór og plastið í honum sem og hurðum skýtur skökku við í annars flottri innanréttingunni. Sætin eru líka í sérstöðu hvað varðar útlit og óneitanlega sportleg í þessari útfærslu, hvít og svört. Öryggisbeltin eru síðan rauð líkt og í Brabus.
Fínn kraftur og státar af mikilli dráttargetu
Smart #3 er með dráttargetu upp á 1600 kg. Það ætti að vera kærkomið að geta dregið kerru upp í bústaðinn eða húsvagn með sér í sumarfríið. Þetta mun þó örugglega koma niður á drægninni sem gefin er upp allt að 455 km í afturhjóladrifnu útfærslunni en í fjórhjóladrifinni útfærslu er hún gefin upp 415 km. Stærð rafhlöðunnar er sú sama á báðum útfærslum, 66 kWh. Afmælisútgáfan er með 272 hestöfl sem gefur bílnum kraft til að komast á 5,8 sekúndum upp í 100 km hraða.
Aksturseiginleikar bílsins eru góðir, hann virkar sportlegur og fjöðrunin er hæfilega stíf. Hann er ágætlega þéttur og vind- og veghljóð ekki áberandi í reynsluakstrinum. Stór krókurinn er frekar fyrirferðarmikill og hefði verið kostur að hafa hann innfellanlegan á svona sportlegum bíl.
Í öryggisbúnaði státar bíllinn af nálgunarvörum og árekstrarvörn að framan og að aftan, blindpunktaviðvörun, þverumferðarvara að framan og aftan og akreinastýringu ásamt fleiru. Hins vegar finnst mér vanta að hurðarhúnarnir, sem fara út þegar gengið er að bílnum, færu ekki til baka fyrr en keyrt er af stað. Eitthvað sem getur verið slæmt í stórborginni ef farangur eða annað verðmæti er geymt í aftursæti. Kannski ekki enn vandamál hér en kom samt á óvart.
Smart #3 er í heildina skenmtilegur akstursbíll með sportlegt útlit og aksturseiginleika. Hann er með krók og góða dráttargetu sem laðar jafnvel að annan hóp kaupenda. Verðið er líka ágætt en hann kostar 7.890.000 kr. í afmælisútgáfunni, en 6.990.000 kr. með styrk úr Orkusjóði.
Upphaflega hugmynd Swatch
Smart á sér langa sögu sem smár en knár borgarbíll. Yfirleitt voru þessir bílar tveggja sæta en einnig voru framleiddir fjögurra sæta Smart smábílar. Smart kemur upphaflega út frá hugmynd Swatch úrafyrirtækisins og var hann hannaður og smíðaður af Mercedes Benz.
Smart #3 Anniversary Edition
- Orkugjafi: 66 kWh
- Eyðsla frá: 16,3 kWh/100 km
- Drægni: 455 km
- Hestöfl: 272
- Hröðun 0-100: 5,8 sek.
- Verð: 7.890.000 kr.
- Umboð: Askja
Fjallað var um málið í sérblaðinu Bílar, sem fylgdi Viðskiptablaðinu.