Stærsta og eftirtektarverðasta breytingin á tölvum Apple, eftir að tæknirisinn ákvað að nota eigin örgjörva af sömu gerð og í snjalltækjum sínum, verður sú að snjallforrit fyrir farsíma og spjaldtölvur frá Apple munu virka snurðulaust á öllum borð- og fartölvum.

Í ljósi þess að Apple tekur 30% gjald fyrir öll viðskipti í gegnum snjallforritatorg þess, App Store, er óhætt að segja að það verði nokkur búbót fyrir tæknirisann í Cupertino. Á síðasta ári nam velta App Store 50 milljörðum dala, sem skilaði Apple þá 15 milljörðum dala, ígildi tæpra 2.100 milljarða króna, en það slagar hátt í verga landsframleiðslu Íslands.

Þótt viðmótið í tölvunum breytist lítið, og formið haldist eflaust svipað, verður því í raun mun minni munur á tölvum og snjalltækjum fyrirtækisins en áður. Snjallforrit munu virka á öllu frá farsímum upp í iMac og Mac Pro, og minni hitamyndun mun mjög líklega með tíð og tíma gera fartölvum kleift að sleppa viftunum sem hingað til hafa aðgreint þær frá spjaldtölvum.

Apple þvertekur fyrir fartölvur með snertiskjám
Á móti má vel hugsa sér að einn daginn verði hægt að nota nýja tölvustýrikerfið, sem gengur undir nafninu Big Sur, á spjaldtölvum Apple. Til þess þyrfti þó væntanlega að hanna viðmótið í kringum snertiskjái til viðbótar við tölvumýs, líkt og Microsoft gerði með Windows 8 fyrir átta árum.

Þótt spjaldtölvur sem nota má sem fartölvur og öfugt séu ekki nýjar af nálinni að forminu til er það nýlunda í tækniheiminum að slíkar tölvur keyri á sambærilegum örgjörvum. Apple þvertekur enn sem komið er fyrir að hyggja á útgáfu fartölvu með snertiskjá, en það verður ekki annað sagt en að skilyrði séu orðin ansi hagfelld fyrir slíkt skref.

Enn fremur hefur verið bent á að sumum viðmótsbreytingum í Big Sur svipi skuggalega mikið til þess sem fólk þekkir úr síma- og spjaldtölvustýrikerfinu iOS, sem myndi gera notkun þess nokkuð hentugri með snertiskjá en fyrirrennara þess.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .