Manuel Torreabla og Bjarney Hinriksdóttir voru með matarvagninn La Buena Vida á Götubitahátíðinni í Hljómskálagarðinum um síðustu helgi. Manuel er frá Mexíkó og bjó hann þar til hágæða mexíkóska rétti eins og tacos fyrir gesti hátíðarinnar.

„Við byrjuðum að vinna við þetta í maí. Ég var búinn að vera í vindlabransanum í Mexíkó í 25 ár og Bjarney er hönnuður. Við kynntumst svo á netinu og erum búin að vera frábært teymi alveg frá byrjun. Ég flutti svo til Íslands fyrir tveimur árum og vann á mexíkóskum veitingastað. Fyrir það hafði ég enga reynslu í eldamennsku, en mér fannst náttúrulega gaman að elda,“ segir Manuel.

Hann segir að yfirmaður sinn á veitingastaðnum hafi gefið honum innblástur til að byrja með eigin rekstur. „Ég sá að ég bjó yfir einhverjum hæfileikum og kannski er það líka bara mexíkóska blóðið í mér. Við sáum svo bíómyndina „The Chef“ fyrir 2-3 mánuðum síðan sem varð til þess að ákváðum bara að slá til.“

La Buena Vida þýðir á "Góða lífið" á spænsku.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Manuel segist hafa ágætis hugmynd um hvernig alvöru mexíkóskur matur eigi að smakkast og bætir við að matur sé mjög mikilvægur hluti af sjálfsmynd fólks, sérstaklega fyrir innflytjendur í nýju landi. Hann segist leggja mikla ást og umhyggju í matinn sem hann eldar og að Bjarney geri slíkt hið sama með sinni vinnu.

„Það er æðislegt að elda mexíkóskan mat og hlusta á alla þessa mexíkósku tónlist. Ég er bara búinn að vera dansandi alla helgina. En ég er samt ekki of strangur með matinn. Mér finnst æðislegt að sjá hvernig við blöndum saman matinn okkar og hvað við getum lært af hvort öðru.“

Manuel notaðist til að mynda við íslenskt smælki yfir helgina, sem er ekki fáanlegt í Mexíkó þar sem hann hefði notast við öðruvísi kartöflur. Hann segist hins vegar ekki vera í því að elda hákarl ofan í viðskiptavini sína og hlær.

„La Buena Vida þýðir góða lífið og það er það sem þetta snýst allt um, að gera hlutina með ást.“