Hönnun bílsins byggir á Prophecy Concept EV hugmyndabílnum sem sjá má á aflíðandi þakinu og straumlínulagaðri hönnuninni. Mikið er gert úr að hafa loftviðnámsstuðulinn sem lægstan og með vindskeið að aftan og sjálfvirkum loftspjöldum að framan næst hann niður í aðeins 0,21. Þetta skilar minni orkunotkun og þá lengri drægni á hleðslunni.
Hyundai IONIQ 6 kemur sem afturhjóladrifinn eða fjórhjóladrifinn og í útfærslunum Comfort, Style og Premium. Sama rafhlaðan er í öllum gerðum bílsins og er lengsta drægnin í afturhjóladrifna bílnum þar sem rafhlaðan knýr einungis afturöxulinn. Uppgefin drægni er frá 614 km til 519 km í fjórhjóladrifnu útgáfunni.
Vistvænt og vandað innanrými
Innanrýmið er mjög rúmgott og glæsilegt. Fyrir ökumann er hönnun mælaborðsins á margan hátt kunnugleg, 12,3” stafrænn mælaskjár auk 12,3” upplýsinga- og afþreyingarsnertiskjás fyrir miðju.
Nýjung er að miðstokkurinn er með brú þar sem stjórntakkar fyrir glugga og hurðar eru. Þetta gefur auka hnérými en að sama skapi er minna geymslupláss í hurðum.
Hljóðkerfið í Style bílnum er frá BOSE og er með átta hátölurum og hljómgæðin fyrsta flokks. Leðurklætt stýri er staðalbúnaður í IONIQ 6 og er leðrið vistvænt, enda sjálfbær og umhverfisvæn efni notuð að mestu í innanrýminu. Innanrýmið er stílhreint og vandað og sæti þægileg. Sérstök þæginda framsæti eru í Premium útfærslunni þar sem hægt er að hvíla sig vel þegar bíllinn er hlaðinn.
Nánar er fjallað um IONIQ 6 í fylgiritinu Bílar sem fylgdi nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins í gærmorgun.