Kostnaður við að halda HM í knattspyrnu hefur aukist nokkuð á undanförnum mótum. Ef litið er til mótanna fyrir aldamót, þá kostaði mótið í Frakklandi árið 1998 um tvo milljarða dala og mótið í Bandaríkjunum 1994 einungis 500 milljónir dala. Til samanburðar kostuðu mótin í Brasilíu 2014 og Rússlandi 2018 á bilinu 12-15 milljarða dala.

„Ég veit ekki hvort það þurfi endilega að vera þannig í framtíðinni að kostnaður aukist. Ástæðan fyrir mikilli aukningu að undanförnu eru auknar kröfur FIFA, meðal annars er varðar leikvangana en einnig varðandi innviði, sér í lagi samgöngur. Þegar kom að mótunum í Rússlandi, Brasilíu og Suður-Afríku, pössuðu þeir fótboltalegu innviðir og samgöngur sem voru í löndunum ekki inn í kröfur FIFA. Mikil innviðauppbygging fór fram í þessum löndum sem endurspeglast í auknum kostnaði.“

Áætlaður kostnaður vegna mótsins í Katar er í kringum 11 milljarðar dala. Björn segir færri velli meðal útskýringa þess að mótið í Katar kosti ekki meira en mótin þar á undan. Spilað verður á átta leikvöngum, sem er talsvert færri vellir en hefur tíðkast á undanförnum heimsmeistaramótum. Bæði í Rússlandi og í Brasilíu var spilað á tólf leikvöngum. Færri leikvangar þýðir minni kostnaður í uppbyggingu þeirra, en einn af þessum átta leikvöngum var þegar tilbúinn, Khalifa International Stadium.

Næsta heimsmeistaramót, HM 2026, verður haldið í Norður-Ameríku og Mexíkó.

„Þar er að miklu leyti verið að spila á völlum sem eru í lagi og þarf lítið að gera. Í Mexíkó er reyndar að vera fara í miklar framkvæmdir á Azteca-vellinum, en það er ekkert svo ólíklegt að það hefði hvort er verið gert. Innviðir eins og lestarsamgöngur, samgöngutími frá flugvelli og á vellina er hluti af þessum kröfum, og þessir innviðir eru í betra standi í Bandaríkjunum og Kanada heldur en var í Suður-Afríku og sérstaklega Rússlandi."

Hvítþvottur í íþróttum: HM í Sádi-Arabíu 2030?

Sádi-Arabía, ásamt Egyptum og Grikkjum, er að undirbúa sameiginlega umsókn til þess að fá að halda HM 2030. Sádar hafa sagst ætla að fjármagna kostnaðinn við uppbyggingu á mannvirkjum í Grikklandi og Egyptalandi fyrir mótið.

„Það er alveg ljóst að Sádar hafa með sama hætti og Katarar komið auga á það að fótbolti kaupir pólitísk stig. Þeir eru nú þegar byrjaðir að nota fótbolta með pólitískum hætti með kaupum á enska knattspyrnufélaginu Newcastle. Þá hafa þeir verið mjög nánir FIFA og Infantino, forseta sambandsins, persónulega og buðust meðal annars til þess að leggja til 20 milljarða Bandaríkjadala í að fjármagna breytingu á Heimsmeistarakeppni félagsliða, án þess að það væri gefið upp að peningurinn kæmi þaðan.“

Ef til þess kæmi að Sádar fengju mótið yrði það að öllum líkindum haldið að vetri til, eins og mótið í ár, vegna veðurskilyrða.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.