G jeppinn hefur verið framleiddur frá árinu 1979 og því er ekki er svo langt í að hægt verður að segja „í meira en hálfa öld“ um jeppann, líkt og Búnaðarbankann heitinn. Allir hafa skoðun á G jeppanum. Flestum finnst hann einn fallegasti bíll sem til er. Örfáum finnst hann ljótur, en það má efast um smekk þeirra.

Við á Viðskiptablaðinu prófuðum ofurútgáfuna af jeppanum á dögunum. Opinbera heiti bílsins er Mercedes-AMG G 63. Að utan er hann ekki svo frábrugðinn hefðbundinni útgáfu bílsins. Það sem sker þó alltaf í sundur er grillið. Þó er hægt að fá „minni“ jeppana í AMG útliti, utan grillsins.

Sömu sögu er að segja af innréttingunni. Hún er lítt frábrugðin þó íburðurinn sé eilítið meiri, og þá helst sætin. Munurinn liggur í vélinni, vélarhljóðinu og upptakinu. Munurinn liggur í 585 hestöflum.

Mikil breyting árið 2019

Margir hafa prófað G jeppann á síðustu áratugum og þekkja því aksturseiginleika hans. Þá er mikilvægt að hafa tvennt í huga. Í kringum 1990 urðu miklar breytingar á bílnum á innréttingu bílsins og þá kom lúxusjeppinn, en hann var hannaður sem herjeppi.

En utan þess voru engar grundvallarbreytingar gerðar á jeppanum. Hönnunin var sú sama í 39 ár. En svo kom 2019 módelið. Þá voru miklar breytingar gerðar á hönnun hans þó útlitslega sjái áhugamenn ekki muninn. Bíllinn var breikkaður um 121 millimetra og lengdur um 53 millimetra. Þessi breyting var risastór þó hún telji í fáum millimetrum. Með stækkuninni skapaðist rými fyrir nútímatæknibúnað sem hafði verið í troðið í gömlu hönnunina. En aðbúnaður bílstjóra og farþega stórbatnaði við stækkunina og því er bíllinn mun rúmbetri.

Meine Gute

En það sem breyttist mest árið 2019, á fjörutíu ára afmælinu, voru aksturseiginleikarnir. Með nýrri og sjálfstæðri fjöðrun að framan breyttist bíllinn úr þunglamalegum herjeppa í snarpan sportbíl – ef við leyfum okkar að ýkja örlítið. En Meine Gute – eða góður guð. Þvílíkur munur.

Umfjöllunin birtist í sérblaðinu Bílar, sem kom út fimmtudaginn 16. mars 2023. Áskrifendur geta lesið hana í heild hér.