Björn Berg Gunnarsson, fjármálaráðgjafi, gefur Íslendingum góð ráð um hvernig er best að komast hjá því að lenda í verðbólgudraugnum á ferðalögum í sumar.

„Það er dýrt á Íslandi, eins og okkur leiðist seint að benda á. Raunar á gamla góða íslenska veðrið á hættu að missa öruggt sæti sitt sem það fyrsta sem við fussum og sveium yfir þegar okkur dettur ekkert betra í hug. “...hvað heldurðu að það hafi kostað?” er býsnast á innsoginu í lok einhverrar yfirgengilega óáhugaverðrar reynslusögu,” skrifar Björn í aðsendri grein á Vísi.

Verðbólgan er þó ekki bundin við Íslands heldur eru hún nokkuð almenn alþjóðlega enda gripu flest lönd til aðgerða til verja fjárhag heimilanna í COVID-faraldrinum.

„Það var víst ekki ókeypis að prenta alla þessa peninga og einhvern veginn braust kostnaðurinn fram. Sem dæmi má nefna að í Svíþjóð hefur verðlag hækkað um 20% frá því faraldurinn hófst og raunlaun íbúanna rýrnað töluvert,” skrifar Björn.

„Ef hugurinn stefnir út er því ekki úr vegi að spyrja sig hvort reikningurinn verði sá sami og síðast,” bætir Björn við.

Nokkur einföld ráð fyrir ferðalanga

Hann segir krónuna hafa verið að mestu til friðs að undanförnu en gengisbreytingar einar og sér gera ferðalög til útlanda væntanlega ekki dýrari en síðast.

„Á flestum áfangastöðum Íslendinga í leit að d-vítamíni hefur verðbólgan þó verið merkilega mikil undanfarin misseri og verðlag þar gæti því komið nokkuð á óvart,” skrifar Björn.

Það eru því tveir valkostir í stöðunni. Annað hvort að gera ráð fyrir meiri útgjöldum þegar það er komið út eða vega gegn verðbólgunni með hugviti og „nokkur einföld ráð að vopni“

Áhugafólk um hið síðarnefnda gæti ef til vill sparað sér nokkrar evrur með því að líta til eftirtalinna atriða sem Björn nefnir:

  • Forðastu veitingastaði á vinsælum ferðamannastöðum. Það er góð ástæða fyrir því að við rekumst þar sjaldan á heimamenn.
  • Gæddu þér á ódýrari matseðli með því að leggja ríkari áherslu á hádegisverðinn í stað kvöldverðar. Mundu svo að vínflaska er oft talsvert dýrari en vín hússins í könnu.
  • Notaðu netið til að leita uppi matsölustaði sem heimamenn mæla með.
  • Það er óþarfi að vera feiminn við götubita annað slagið.
  • Líttu á matseðla og ákveddu sem flestar máltíðir áður en þú heldur út. Ekki láta galtóman og veinandi magann velja fyrir þig þegar þú ert úti.
  • Íhugaðu að bóka hótelherbergi án morgunverðar og rölta þess í stað í nálæg bakarí.
Björn hvetur Íslendinga erlendis til að setja sér útgjaldaáætlun.

Hámarksútgjöld og hraðbankar

Hann bendir einnig fólki á að halda sig við útgjaldaáætlun og taka ákvörðun um hámarksútgjöld tiltekinnar neyslu. Dæmi um slík hámörk eru hámarkskostnaður við veitingar, samgöngur, gistingu, skemmtanir og verslun. 

Neytendur eiga að forðast hraðbanka og að skipta út peningum.

„Hraðbankar á vinsælum ferðamannastöðum, hótelum og flugvöllum geta verið sérlega varasamir vegna hárra gjalda.”

Sennilega er best að nota kreditkort við ýmsar greiðslur því þeim gætu fylgt tryggingar.

Leitaðu uppi tilboð og notaðu almenningssamgöngur

Björn hvetur síðan fólk til að hafa á hreinu hvernig er hagkvæmast að komast til og frá flugvelli og nota almenningssamgöngu eftir bestu getu.

Að lokum segir hann fólki að leita uppi tilboð.

„Fjöldi vefsíðna birtir tilboð á hótelgistingum með löngum fyrirvara, mjög stuttum fyrirvara eða ef bókaðar eru tiltekið margar nætur, svo fáeitt sé nefnt. Það sama gildir um bílaleigubíla og jafnvel skemmtanir,“ skrifar Björn og bætir við að dýrustu ferðalögin eru alls ekki alltaf þau skemmtilegustu.