Eins og fjallað var um í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins hefur salan á Hoka, sem helst eru þekktir fyrir að vera litskrúðugir og þægilegir hlaupaskór, aukist úr 3 milljónum dala í 1,4 milljarða dala á rúmum áratug. Útlit Hoka-skónna er umdeilt og hefur þeim meðal annars verið lýst sem forljótum trúðaskóm. Þrátt fyrir það njóta þeir ómældra vinsælda hjá ungum sem öldnum.

Frakkarnir Jean-Luc Diard og Nicolas Mermoud stofnuðu Hoka árið 2009, en leiðir þeirra lágu fyrst saman á skíðamóti í frönsku Ölpunum mörgum árum fyrr. Þegar þeir ákváðu að fara út í fyrirtækjarekstur hölluðust þeir mest að því að einblína á framleiðslu á skóm. Skóiðnaðurinn var og er vissulega risastór en þeim þótti tæknin á bak við skóframleiðslu á þessum tíma fremur einsleit og sáu því ýmis tækifæri til staðar. Upphaflega hugmyndin var að yfirfæra ánægjuna sem brimbretta- og skíðafólk finnur fyrir þegar það „svífur“ milli alda eða niður skíðabrekkurnar yfir á fjallahlaupara. Upphaflega nefndu þeir vörumerkið Hoka One One, sem er orðatiltæki sem á rætur sínar að rekja til frumbyggja Nýja-Sjálands, Maóría. Lausleg þýðing orðatiltækisins er að „fljúga yfir jörðinni“.

Þegar þeir fóru af stað í að þróa hlaupaskó sem áttu að hjálpa hlaupurum að hlaupa hraðar niður fjöll komust þeir að því að það sama ætti við um skóna og nýmóðins tennisspaða, hjóladekk og skíði; því stærri, því betra. Árið 2009, sama ár og þeir félagar stofnuðu Hoka, fengu Bandaríkjameƒnn í fyrsta sinn smjörþefinn af hlaupaskónum skrautlegu. Mermoud mætti þá á viðskiptasýningu þar sem ýmis fyrirtæki í hlaupavörubransanum kynntu vörur sínar. Hann mætti með poka fullan af frumgerðum af hlaupaskóm en hafði þó ekki haft fyrir því að panta bás á sýningunni. Enda kom svo í ljós að hann þurfti engan slíkan, þar sem Hoka-skórnir voru eftirminnilegir sökum þess hve ólíkir þeir voru skóm samkeppnisaðilanna.

Ári síðar sendi Hoka um 1.100 pör af skóm til Bandaríkjanna og Kanada til endursölu. Tveimur árum síðar ákvað Decker Brands að fjárfesta í hlut í Hoka og ári síðar ákvað félagið að kaupa eftirstandandi hlut í skóframleiðandanum. Eins og fyrr segir nam sala Hoka um þremur milljónum dala árið 2012 en fimm árum síðar var salan komin upp í 100 milljónir dala. Þrátt fyrir fyrrgreinda stefnu eigenda um að flýta sér hægt hægði aldeilis ekki á vextinum næstu sex árin er 1 milljarðs dala múrinn var rofinn.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild sinni hér.