Hópur alþjóðlegra listamanna úr framvarðasveit samtímatónlistar kemur fram á tónlistarhátíð á Sunnuhvoli í Bárðardal fimmtudaginn 20. og föstudaginn 21. júlí 2023.

Alls verða fimm tónleikar í hlöðunni á Sunnuhvoli auk orgeltónleika í Lundarbrekkukirkju.

Sunnuhvoll er jörð í Bárðardal sem reis í áföngum á árunum 1933-1968 sem nýbýli út frá Sigurðarstöðum. Hefðbundinn búskapur lagðist af á Sunnuhvoli um aldamót og frá árinu 2017 hefur verið unnið að skapandi varðveislu húsakostsins á Sunnuhvoli.

Sunnuhvoll er jörð í Bárðardal sem reis í áföngum á árunum 1933-1968.
© Magnús Magnússon (Ljósmyndari)

Virkjun bæjarhúsanna hefur meðal annars alið af sér ilmsmiðjur, keramikvinnustofur, bókmenntaupplestra, bruggtilraunir með staðbundnar jurtir og frá árinu 2020 hafa verið haldnir sumartónleikar í hlöðunni á Sunnuhvoli sem hefur sannað sig sem úrvals tónleikastaður.

Tónlistarmennirnir sem koma fram á hátíðinni hafa hlotið heimsathygli fyrir verk sín og eiga það sameiginlegt að leggja áherslu á samsköpun og útvíkkun hefðbundinna tónlistarforma.

Bandaríska tónskáldið Yvette Janine Jackson mun einnig koma fram á hátíðinni.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Þar á meðal er bandaríska tónskáldið Yvette Janine Jackson en hluti útvarpsóperu hennar, Left Behind, verður fluttur á fimmtudagskvöldinu 21. júlí af henni sjálfri, Berglindi Maríu Tómasdóttur og Amy Cimini.

Yvette hefur hlotið mikið lof fyrir verkið sem var flutt á Feneyjartvíæringnum haustið 2022.

Auk þess koma fram þrír ungir tónlistarmenn, Ana Luisa de Cossio fiðluleikari, Cameron Anderton fagottleikari og Ása Ólafsdóttir gítarleikari, en öll hafa þau nýlokið námi frá tónlistardeild Listaháskóla Íslands.

Á bak við starfsemina á Sunnuhvoli standa Gunnlaugur Friðriksson tölvunarfræðingur og ábúandi á Sunnuhvoli og Anna María Bogadóttir arkitekt og rithöfundur.