Laugardaginn 15. júní kl. 15-17 opna tvær sýningar í Listval; ‘Parergon: Fjarveran sem skilgreinir málverkið’ með verkum eftir Jón B. K. Ransu og ‘Millibil’ með verkum eftir Sigurrós G. Björnsdóttur.

Laugardaginn 15. júní kl. 15-17 opna tvær sýningar í Listval; ‘Parergon: Fjarveran sem skilgreinir málverkið’ með verkum eftir Jón B. K. Ransu og ‘Millibil’ með verkum eftir Sigurrós G. Björnsdóttur.

Jón B. K. Ransu er myndlistarmaður menntaður í Hollandi á árunum 1990-1995. Þar af var hann í skiptinámi við NCAD (National College of Art and Design) í Dublín í eina önn. Þá tók Ransu þátt í ISCP (International Studio and Curatorial Program) í New York árið 2006 og hlaut þá styrk úr sjóði The Krasner Pollock Foundation.

„Málverk hans byggja öllu jafnan á endurskoðun listaverka og liststefna og á þessari sýningu leggur hann áherslu á hvernig við skynjum og vinnum upplýsingar úr litum og formum“ segir Helga Björg Kjerúlf, eigandi Listval.

Sigurrós G. Björnsdóttir sýnir einnig ný verk á sýningunni Millibil. Hún lauk meistaranámi í myndlist frá Royal Academy of Fine Arts Antwerp árið 2021 og BA námi í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2017. Sigurrós hefur sýnt verk sín í Belgíu, Íslandi, Hollandi og Þýskalandi.

„Sigurrós er að skoða þessi bil eða millibil. Það að vera á milli staða, vera í millibili, vera á milli bila o.s.frv. Verk hennar eru skúlptúrísk, unnin í pappír, textíl, pappamassa og keramík. Hún krotar og krassar með trélitum í verkin, pússar þau og slípar. Þarna er hún að vinna úr sínum eigin reynsluheimi og umhverfi í bland við eigin skáldskap og miðlar með þeim ólíkum frásögnum“ segir Helga.

Verk af sýningunni Millibil.