Eyþór Rúnarsson er einn fremsti matreiðslumeistari landsins en hann ákvað upphaflega að fara í kokkanámið þar sem það innihélt enga stærðfræði. Eyþór hefur unnið sem yfirkokkur á mörgum af fremstu veitingastöðum landsins og var meðlimur íslenska kokkalandsliðsins frá árinu 2005 til 2011. Í dag starfar hann sem yfirkokkur hjá Múlakaffi. Eyþór deilir uppskrift vikunnar með lesendum.

Léttsýrt grænmeti
Innihald:
- Safi úr 1 sítrónu
- 2 msk agave síróp
- 2 msk ólífuolía
- 200 gr gulrætur, skrældar
- 4 sellerí stiklar, skrældir
- 2 msk eplaedik
- Sjávarsalt
Aðferð:
- Setjið sítrónusafann, agave sírópið og ólífuolíuna saman í skál og blandið vel saman með písk.
- Skerið allt grænmetið fínt niður og setjið út í skálina.
- Smakkið til með salti og pipar.
Grillaðar kjúklingalundir í sriracha sósu
Innihald:
- 600 gr kjúklingalundir
- 1 lime
- 2 msk srirache sósa
- Sjávarsalt
Aðferð:
- Setjið lundirnar í fat með sósunni og limesafanum.
- Kryddið með salti og veltið lundunum vel upp úr öllu saman.
- Setjið lundirnar í efri hilluna á sjóðandi heitt grillið og grillið í 3 mínútur á hvorri hlið eða þar til lundirnar eru eldaðar í gegn.
Kotasælusalat
Innihald:
- 500 gr kotasæla
- 4 stk fínt skorinn vorlaukur
- 1 stk rauð paprika smátt skorin
- Börkur og safi af 1 stk lime
- 1/3 kóríanderbréf
- 1 tsk sambal oelek chilimauk
- Sjávarsalt
Aðferð:
- Setjið allt hráefnið saman í skál og smakkið það til með salti.
Meðlæti:
Innihald:
- 1 haus iceberg salat
- 1/3 kóríanderbréf
Aðferð:
- Takið salatblöðin utan af iceberg salatinu og rífið kóríanderinn niður.
- Setjið allt hráefnið á borðið og raðið ykkar tacoi saman eftir smekk.