Bandaríska tímaritið Forbes hefur tekið saman lista yfir verðmætustu félagslið í heimi í knattspyrnu eftir tímabilið sem var að ljúka.

Í efsta sæti er Real Madrid sem sigraði bæði spænsku deildina La Liga og Meistaradeild Evrópu. Real Madrid ætlar að fara í gríðarlegar framkvæmdir á heimavelli sínum á næstunni og áætlar að það muni kosta 108 milljarða króna, um 850 milljónir Bandarikjadala.

Sérstaka athygli vekur að Manchester City, sem unnu ensku deildina með einu stigi er aðeins í 6. sæti á sama tíma og Manchester United er í þriðja sæti.

Virði efstu liðanna er frekar jafnt en þegar neðar dregur á listanum er munurinn mikill.

Þótt spænsk lið vermi tvö efstu sætin eru einungis þrjú spænsk lið á topp 20 listanum. Langflest liðin á listanum eru ensk eða ellefu talsins.

Forbes hefur tekið saman listann 18 sinnum. Þó ekki í röð því listinn var ekki tekinn saman árið 2020. Real Madrid hefur verið í efsta sætinu 6 sinnum en Manchester United í 11 skipti.