Borgaryfirvöld í ítölsku borginni Mílanó eru að íhuga bann á sölu á mat og ís eftir miðnætti með það að markmiði að stuðla að ró og næði í miðborginni.

Fréttamiðillinn Euro News greinir frá því að ef bannið verður að veruleika mega veitingaeigendur ekki selja matvæli eftir klukkan 00:30 á virkum dögum og 01:30 um helgar og á almennum frídögum.

Borgaryfirvöld í ítölsku borginni Mílanó eru að íhuga bann á sölu á mat og ís eftir miðnætti með það að markmiði að stuðla að ró og næði í miðborginni.

Fréttamiðillinn Euro News greinir frá því að ef bannið verður að veruleika mega veitingaeigendur ekki selja matvæli eftir klukkan 00:30 á virkum dögum og 01:30 um helgar og á almennum frídögum.

Lögin myndu ná yfir sölu á pizzum, ís og drykkjum og þyrftu veitingastaðir einnig að loka útivistarsvæðum sínum á sama tíma. Bannið myndi gilda í öllum 12 hverfum í Mílanó og myndi öðlast gildi einhvern tímann í næsta mánuði.

„Margir íbúar kvarta yfir miklum hávaða og það er mitt hlutverk að hlusta á alla borgarbúa, þar með talið þá sem þurfa að vinna og stunda viðskipti,“ segir Giuseppe Sala, borgarstjóri Mílanó.

Hins vegar eru ekki allir íbúar sammála um að bannið sé gott fyrir borgina og segja jafnvel sumir að bannið fari gegn ítalskri menningu.

„Hvað gerir meðalfjölskyldan á sumrin? Þeir fara í göngutúr eftir kvöldmatinn og fá sér ís. Þetta er klassísk hefð og því er ljóst að ef þú kemur í veg fyrir þessar menningarhefðir þá verða ekki allir hamingjusamir,“ segir Marco Barbieri, framkvæmdastjóri ítalskra smásölusamtaka í Mílanó.