Ioniq 5 er innblásinn af framúrstefnulegri hönnun hugmyndabílsins Concept 45 EV. Bíllinn er framúrstefnulegur í hönnun en samt ræður einfaldleikinn ríkjum með stílhreinum línum. Skellaga vélarhlífin nær yfir alla breidd bílsins og skapar fallegt og hreint útlit. Það er dálítill retro fílingur í hönnuninni. Svolítið skemmtileg blanda af eighties og framtíðarlegri hönnun.

Hyundai Ioniq 5 hefur verið sigursæll síðan hann kom á markað á síðasta ári. Bíllinn kom, sá og sigraði á verðlaunahátíðinni World Car Awards 2022 sem fram fór á alþjóðlegu bílasýningunni í New York (NYIAS) þegar hann var allt í senn kjörinn „Heimsbíll ársins 2022“, „Rafbíll ársins“ og „Hönnun ársins“. Hyundai Ioniq 5 var einnig valinn Bíll ársins í Þýskalandi og Bretlandi.

Hyundai hefur lagt mikið í Ioniq 5 og óhætt að segja að bíllinn hafi skilað sínu enda búinn að raka til sín alþjóðlegum verðlaunum. Ioniq 5 er af nýrri kynslóð rafbíla á nýjum og háþróuðum undirvagni. Hyundai Group hyggst kynna sautján nýja rafbíla fyrir árið 2030.

Flott og nútímaleg hönnun

V-laga formið afmarkar framstuðarann og nett LED ljósin að framanverðu. Fallegar hliðarlínurnar eru undirstrikaðar af sjálfvirkum innfelldum hurðarhúnum sem einnig falla vel að straumlínulagaðri hönnun bílsins. Afturhlutinn er einnig vel heppnaður þar sem afturhleri og stuðari falla vel að ferhyrndri hönnun afturljósanna.

Innra rýmið er sömuleiðis flott og framúrstefnulegt. Stórt flatt gólfið og miðstokkur sem hægt er að færa um rýmið. Sætin eru mjög þægileg, alveg hvít að lit og hægt að halla þeim alveg aftur. Meira að segja aftursætin er rafdrifin og hægt að stilla fram og til baka. Mælaborðið er rennilegt með tveimur samþættum skjáum. Annars vegar 12,25“ snertiskjár fyrir upplýsinga- og afþreyingakerfið og svo 12,25“ stafrænn mælaskjár sem má segja að fullkomni tæknilegt yfirbragð í innanrýminu. Skiptistöngin er á stýrissúlu. Dálítið sérstakur staður en það venst að hafa hana þarna og hún er einföld og nákvæm í notkun. Skiptirofarnir eru innan seilingar og hægt að stjórna á einfaldan hátt.

Vistvænn og rúmgóður

Það er nóg pláss fyrir ökumann og farþega og sömuleiðis farangur. Farangursrýmið er 527 lítrar og stækkanlegt í 1.587 lítra með niðurfelld sætisbök auk þess sem hægt er að færa aftursætin í heild fram um 20 sentímetra. Ioniq 5 getur dregið allt að 1,6 tonn á dráttarkróki.

Hyundai leggur mikið upp úr vistvænni hönnun í Ioniq 5. Efnisval í innanrýminu er til að mynda mikið til vistvænt. Sæti, loftklæðning, hurðarklæðing, gólf og armhvílur eru úr efnum sem framleidd eru á sjálfbæran máta svo sem endurunnum plastflöskum, plastgarni sem unnið er úr plöntum og náttúrulegri ull, og leðri sem unnið er vistvænt með plöntuþykkni að sögn bílaframleiðandans.

Nýr undirvagn

Ioniq 5 er á nýjum E-GMP undirvagni Hyundai sem er um 4,6 metrar að lengd. Við undirvagninn er MacPherson fjöðrunarbúnaður að framan og fjölliðafjöðrun að aftan. Ioniq 5 er í boði með vali um tvær rafhlöður, annars vegar 58 kWh og hins vegar 73 kWh. Rafhlöðukerfi bílsins er 800 Volt sem gerir kleift að tengja Ioniq 5 við 220 kW hraðhleðslustöð og hlaða bílinn á aðeins átján mínútum úr 10% í 80%.

Ioniq er raunar einn af fyrstu rafbílunum sem framleiddir eru með 800 v rafhlöðukerfi. Hleðslan tekur því afar stuttan tíma. Afköstin eru jafnframt mikil og hnökralaus og mjög gott jafnvægi á milli þyngdar og rýmis.

Mjög snöggur í upptakinu

Reynsluakstursbíllinn er í Premium útfærslu með fjórhjóladrifi og stærri rafhlöðunni. Drægnin er allt að 481 km. Aflið er feikilega gott og rafhlöðurnar skila bílnum 325 hestöflum og 350 Nm í togi. Bíllinn er aðeins 5,2 sekúndur í 100 km hraða. Hámarkshraðinn er 185 km/klst.

Bíllinn er afar góður í akstri enda fjöðrunin frá MacPherson. Hann er bæði mjög snöggur í upptakinu og liggur vel á veginum jafnvel þótt tekið sé á honum í beygjum. Ioniq 5 er þéttur og með mikilli hljóðeinangrun. Stýringin er mjög góð. Stýrið minnir svolítið á Kia EV6 og svo sem ekki skrítið því þeir eru frændur frá Suður-Kóreu.

Til í ýmsum útfærslum

Aðrar útfærslur af bílnum eru í boði. Í Ioniq 5 með 58 kwh rafhlöðunni er rafmótor fyrir afturdrif sem skilar 170 hestöflum, 350 Nm togi og 384 km drægni. Með afturhjóladrifnum bíl og 73 kwh rafhlöðu fást 218 hestöfl og 350 Nm tog sem skila bílnum í 100 km/klst. á 7,4 sekúndum og er drægni rafhlöðunnar allt að 481 km. Síðast en ekki síst er Ioniq 5 með stærri rafhlöðunni í boði fjórhjóladrifinn eins og hér er reynsluekið.

Ioniq 5 fæst í þremur mismunandi búnaðarútfærslum, Comfort, Style og Premium, sem kosta á bilinu frá 5.990 til 8.390 þúsunda króna. Reynsluakstursbíllinn í Premium útfærslunni kostar 7.890.000 kr. Þannig er bíllinn m.a. með glerþaki, loftkældum framsætum sem eru sérstök þægindasæti í viðbót, upphituðum og rafdrifnum aftursætum, færanlegum miðjustokki, vegan leðuráklæði sem vakti athygli í hvítum lit, 360°myndavél og blindhornsmyndavél svo nokkuð sé nefnt. Þá er bíllinn með Bose hljómkerfi sem skemmir ekki fyrir.