Sigurður Gunnlaugsson, betur þekktur sem Siggi kokkur, var meðal þeirra veitingamanna sem mættu til að elda ofan í gesti Götubitahátíðarinnar í Hljómskálagarðinum í ár. Þetta var í fyrsta sinn sem Siggi tók þátt í hátíðinni en hann rak meðal annars Hamborgarabúllu Tómasar í London í fjögur ár.

Götubitahátíðin fór fram síðustu helgi og vakti hún mikla lukku meðal gesta. Hátt í 24 söluaðilar voru á staðnum og fengu gestir að skola niður framandi og spennandi mat með svalandi drykkjum. Hoppukastalar voru á staðnum fyrir börnin og að sögn þeirra sem Viðskiptablaðið ræddi við gekk hátíðin vonum framar.

Siggi Kokkur
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

„Ég var í nokkur ár yfir eldhúsinu hjá Tommy‘s, er er náttúrulega bara Hamborgarabúlla Tómasar í London. Það vildi svo til að þar var ég töluvert skeggjaðri og síðhærðari á þeim tíma, þannig menn fóru að fleygja þessu á mig – You‘re like a burger Jesus! Ég tók svo vel í það að ég bara rúllaði með nafnið,“ segir Siggi.

Hann segir að það hafi verið frændi konu sinnar sem hafi hvatt þau til að fara út til London en fyrir hann var Götubitahátíðin bara skemmtilegt verkefni. „Þetta er bara eitthvað rokk og ról sem ég ákvað að gera eftir að hafa talað við Robba,“ og vísar þar til Róberts Arons Magnússonar sem sér um hátíðina.

Siggi Kokkur
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Siggi mannaði vaktina alla helgina þar sem hann bauð upp á hamborgara með rifnu svínakjöti sem hann var búinn að reykja í fjóra klukkutíma. Eftir það var kjötið svo hægeldað í beikonfitu í 24 tíma og hitaði hann það svo upp á staðnum fyrir gestina.

Allt var gert frá grunni og bjó hann meðal annars til sína eigin sósu úr safanum sem kom frá kjötinu og gerjaði svo maís og hvítlauk í hunangi í sérstaki aioli sósu.

„Ég elda þetta meira að segja með tré sem kom úr garðinum hjá mér. Það þurfti aðeins að grisja til þannig ég lét bara börnin mín hafa exi og þau kubbuðu þetta niður og það virkaði bara mjög vel,“ segir Siggi skælbrosandi yfir kolagrillinu.