Hlynur Björnsson tók nýlega við starfi vörumerkjastjóra Borgar brugghúss, Öglu gosgerðar og Brennivíns hjá Ölgerðinni. Síðastliðinn tæpan áratug hefur hann starfað hjá Ölgerðinni, en að útvega fólki guðaveigar hefur hann fengist við alla sína starfsævi á einn eða annan hátt.

Hlynur hóf ungur störf sem barþjónn og vann meðal annars á Vegamótum, Hressingarskálanum, Austur steikhúsi og Kol restaurant.

„Þegar ég sagði fólki að ég væri barþjónn þá var næsta spurning oftast hvenær ætlarðu svo að fá þér alvöru vinnu? en í dag er samfélagið loksins farið að taka þetta ómissandi starf alvarlega.“

Eftir þónokkur ár af því hafði fulltrúi Ölgerðarinnar samband við hann og úr varð að hann fór að vera með vörukynningar fyrir félagið á viðburðum þar sem hann útbjó hina ýmsu kokteila fyrir gesti.

Hlynur segist strax frá upphafi hafa haft mjög gaman af hlutverkinu, sem hafi átt vel við hann enda alla tíð haft mikinn áhuga á matar- og drykkjarmenningu.

„Þetta var frábær tími. Ég byrjaði að vinna með Grand Marnier líkjörinn og var til dæmis mikið á viðburðum hjá fataversluninni Jör.“

Nánar er rætt við Hlyn í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í gærmorgun.