„Mig langaði að fara úr því að fjárfesta til skamms tíma yfir í langtímafjárfestingar. Það hefur verið mikil gróska á Íslandi að undanförnu og mörg fyrirtæki vaxið hratt, sérstaklega utan landsteinana og því næg tækifæri til staðar," segir Davíð Stefánsson, nýr fjárfestingarsjóri í framtaksfjárfestingum hjá sjóðstýringarfyrirtækinu VEX, en á síðustu árum hefur hann gegnt stöðu sjóðstjóra hjá Akta sjóðum.
Áður en Davíð hóf störf hjá Akta sjóðum starfaði hann hjá ráðgjafarfyrirtækinu PJT Partners í London. Þegar Davíð hóf störf hjá PJT hafði félagið nýlega klofið sig frá fjárfestingarrisanum Blackstone og verið skráð á markað á ný í New York.
„Félagið er leiðandi sem ráðgjafi í fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja, og mín verkefni voru ráðgjafarstörf fyrir kröfuhafa."
Davíð sótti meistaranám í alþjóðafjármálum hjá HEC Paris á árunum 2015-2016. Hann segir París frábæra borg og skólann mjög skemmtilegan.
„Ég hef í seinni tíð tekið þátt í að velja inn nemendur fyrir skólann og að sama skapi er ég enn í mjög góðu sambandi við marga úr náminu, og var einmitt í London fyrir tveimur helgum síðan að hitta vini mína úr náminu.“
Davíð á þriggja ára gamlan son með Elvu Rut Þrastardóttur ljósmyndara, og búa þau í Lundi í Kópavogi. Þar að auki eiga þau sex ára gamlan franskan bolabít sem að sögn Davíðs er litríkur karakter. Fyrir utan það að hafa stundað nám í París og starfað í London þá hefur Davíð ferðast mikið og víða í gegnum tíðina.
„Ég fór í reisu eftir menntaskóla og hef farið í minni túra inn á milli. Ferðalög til Afríku og Asíu hafa staðið upp úr, en ég og konan mín fórum m.a. saman í safaríferðir til Kenía og Tansaníu. Ég hef líka mjög gaman af Indónesíu og Srí Lanka og svo komu önnur lönd eins og Jórdanía mikið á óvart.“
Nánar er rætt við Davíð í Viðskiptablaðinu sem kom út á föstudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.